152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[12:27]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins varðandi það hvort við hefðum fullkomið yfirlit yfir hvert og eitt þessara viðbótarverkefna eða ríkisaðila sem koma við sögu í stjórnarsáttmálanum og hv. þingmaður nefndi að eftir atvikum þyrfti jafnvel að koma á fót stofnunum. Ég get ekki sagt að ég sé með neina slíka samantekt en það leiðir af eðli máls að ríkisstjórnin, sem er nýkomin saman með þennan stjórnarsáttmála, mun hafa það sem eitt sitt fyrsta verkefni einmitt að brjóta stjórnarsáttmálann aftur niður í einstök verkefni og útdeila þeim á ráðuneytin og það er leiðin sem við förum til að hafa eftirfylgni með því hvernig verkefni sem nefnd eru í stjórnarsáttmálanum ganga eftir á kjörtímabilinu. Sú vinna verður unnin og ég vil nú bara segja það sem einn höfunda stjórnarsáttmálans og einn þeirra sem undirrita hann að það er ekki af minni hálfu sú hugmyndafræði að baki að við þurfum að koma á fót nýjum stofnunum og fjármagna þær með öllu því sem getur fylgt til að ná þeim árangri sem að er stefnt og til að láta þessi verkefni raungerast. Oft og tíðum eru önnur tímabundin átök að renna sitt skeið sem skapa nýtt svigrúm.

Varðandi tryggingagjaldið þá hygg ég að hér sé einfaldlega verið að nota til samanburðar tölu frá yfirstandandi ári, þar sem við glímdum framan af við gríðarlega mikið atvinnuleysi, og svo tölurnar fyrir næsta ár þar sem staðan verður að meðaltali mun betri. Svo hefur einhver áhrif í þessum samanburði að sérstök tímabundin viðbótarlækkun tryggingagjaldsins rennur sitt skeið núna um áramótin.