152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[12:54]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Já, takk fyrir þetta. Ég tek bara heils hugar undir. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir upphæðunum sem fylgja þessum vítahring. Það er í rauninni hægt að fara í einfalda umslagsútreikninga á þessu. Það er að skoða hversu miklu ríkið eyðir aukalega vegna launahækkana, vegna verðbólguaukningar og verðlagsbóta og taka svo hlutfallslega það sem fasteignaverðshækkanir eru í verðbólgu í dag. Það er bein leið til að reikna þetta. En ég held að það sé góð hugmynd að við beitum okkur fyrir því í fjárlaganefnd að fá frekari útreikninga á þessu vegna þess að þetta er gríðarlega kostnaðarsamt, líka fyrir ríkið. Það gleymist oft í þessari umræðu að þetta er peningur sem lendir líka á skattborgurum og endar svo aftur á þeim í gegnum verðbólguna.