152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[12:59]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni; það er ekkert samræmi þarna á milli. Það er augljóst vegna þess að það er hægt að skoða tölur frá því í fjármálaáætlun í vor, fjármálaáætlun sem ég ítreka að var kynnt af stjórnarliðum sem embættismannaplagg sem ekkert mark væri á takandi í aðdraganda kosninga, þau myndu síðan sjálf leggja mat á og setja svip sinn á þessi fjárlög. Það hefur ekki verið gert. Það er ekki samasemmerki á milli þess sem er sagt í þessum stjórnarsáttmála og útgjöldunum sem núna koma fram. Útgjöldin eru auðvitað ekki markmið í sjálfu sér en samsetning þeirra skiptir máli. Það lítur út fyrir að þetta hafi einfaldlega verið innihaldslaus orðræða sem kynnt var um síðustu helgi. Það er a.m.k. lítið um aðgerðir.