152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[13:01]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er annað atriði sem mig langar að benda á, að í stjórnarsáttmálanum er oft talað um græna orku, grænt hagkerfi og annað slíkt. Ég vil benda á að í dag eru 87% af raforku á Íslandi ekki græn orka. Hún er framleidd úr kolum og kjarnorku vegna sölu upprunaábyrgða. Þannig að allt tal um græna orku, grænt hagkerfi, grænt hitt og þetta, stenst ekki. 90% af raforku á Íslandi eru framleidd með kolum og kjarnorku, þannig að við skulum hætta að tala um grænt hér og þar þegar við erum búin að selja hina hreinu íslensku orku hvað uppruna varðar til Evrópu.

Varðandi hvatana og að nú sé mikilvægt að sýna forystu á þessum tímum þegar við erum vonandi að koma úr óvissuástandinu, þá sé ég enga hvata þarna eða eitt eða neitt sem er til þess að keyra upp verðmætasköpunina. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún sjái einhverja hvata til þess að keyra upp verðmætasköpun í samfélaginu.