152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[13:03]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Kristrúnu Frostadóttur fyrir góða úttekt sem ég var að miklu leyti sammála. En ég hjó eftir því og það truflaði mig svolítið að hún bar saman og talaði um mótsögn í því að ríkisstjórnin styrkti matvælaframleiðslu, það væri mótsögn í því á móti loftslagsmálunum. Ég veit að styrkir til landbúnaðar eru mikill þyrnir í augum Evrópusinna og ég geri mér líka grein fyrir því að matvælaframleiðsla hefur áhrif á umhverfið. En málið er bara að við þurfum að borða. Ég sé það ekki alveg að við eigum öll að vera vegan eða eitthvað þess háttar. Þó að það megi örugglega gera ýmislegt á umhverfisvænni hátt þá þurfum við að tryggja bæði matvælaframleiðslu og matvælaöryggi í landinu (Forseti hringir.) og við erum þegar búin að sjá hversu miklum usla ein lítil veira getur valdið. (Forseti hringir.) Þannig að mér finnst það hvorki vera réttmætur né boðlegur málflutningur að spyrða þetta tvennt saman.

(Forseti (OH): Ég vil biðja hv. þingmenn um að virða ræðutíma.)