152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[13:08]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni kærlega fyrir mjög yfirgripsmikla ræðu sem var flutt hér áðan og komið inn á marga punkta. Mig langar aðeins að staldra við sveitarstjórnir og sveitarstjórnarstigið. Aðeins fyrst, svo ég taki þann krók áður, kæmi það mér ekkert á óvart — af því að hv. þingmaður spurði: Er ríkisstjórnin ekki bara að færa skipulagsvaldið frá sveitarfélögunum til ríkisins? Það kom, vel að merkja, tillaga frá stjórnarflokkunum á síðasta kjörtímabili um nákvæmlega það að taka m.a. skipulagsvaldið af sveitarfélögunum, eins og t.d. í tengslum við Reykjavíkurflugvöll — þannig að það kæmi mér ekkert á óvart ef ríkisstjórnin færi nú þá leið að svipta sveitarfélögin skipulagsvaldinu.

En mig langar að spyrja hv. þingmann, af því ég tek undir mjög réttmætar áhyggjur hv. þingmanns af miklu álagi, ekki síst fjárhagslegu, á sveitarfélögin: Hvernig sér hv. þingmaður það fyrir sér að við getum brúað þetta bil af því að þetta er mikilvæg þjónusta sem sveitarfélögin sinna, ekki síst þegar kemur að málefnum fatlaðra? (Forseti hringir.) Sá málaflokkur er samt að sliga þau. Við sjáum líka aðra málaflokka, eins og öldrunarmál, hugsanlega fara til sveitarfélaga í ríkari mæli. (Forseti hringir.) Hvernig sér hv. þingmaður að við getum tekið á þessu þannig að sveitarfélögin standi undir sínu mikilvæga hlutverki?