152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

afglæpavæðing neysluskammta.

[13:10]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Það gladdi mig mjög að sjá að fimmta málið á þingmálaskrá hæstv. heilbrigðisráðherra sé að afglæpavæða vörslu neysluskammta, að það verði eitt af fyrstu verkum nýs heilbrigðisráðherra. Ég held að ég tali fyrir hönd allra Pírata þegar ég segi að við fögnum þessari einbeittu yfirlýsingu hæstv. ráðherra og við munum að sjálfsögðu leggja okkar af mörkum svo að niðurstaðan verði farsæl. Hér á landi látast 30–40 ungmenni af völdum ofskömmtunar á ári hverju sem er óvenjuhátt hlutfall miðað við aðrar þjóðir. Í þeim löndum sem hafa farið þá leið að afglæpavæða vörslu neysluskammta hefur dauðsföllum þeirra sem látist hafa af ofskömmtun vímuefna fækkað verulega og oftast horfið algerlega.

Að meðhöndla vímuefnanotkun sem heilbrigðis- og félagsmál en ekki innan löggæslu- og dómskerfisins bjargar lífi og er í anda þess sem er að gerast í löndunum allt í kringum okkur. Rannsókn sem unnin var í samstarfi við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands í haust sýndi að meiri hluti þjóðarinnar er fylgjandi því að afglæpavæða neysluskammta og er því sammála hæstv. heilbrigðisráðherra um að meðferð vímuefnanotenda eigi að fara fram í heilbrigðiskerfinu frekar en í fangelsum landsins. Eins og við munum öll strandaði mál fyrrverandi heilbrigðisráðherra í nefnd í vor vegna togstreitu meðal stjórnarflokkanna.

Því langar mig að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann muni fara í þá vinnu að afla málinu stuðnings kollega sinna í nýrri ríkisstjórn og hvort þess megi vænta að þetta mikilvæga mál, þetta mikilvæga mannréttindamál sem bjargar lífi, forseti, fái loksins brautargengi á þessu þingi.