152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

friðlýsing og orkuöflun.

[13:18]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Hæstv. forseti. Fyrst vil ég óska hæstv. ráðherra Guðlaugi Þór Þórðarsyni til hamingju með nýja ráðuneytið og óska honum velfarnaðar í því starfi. Það bárust af því fréttir nú rétt í þessu að á síðustu klukkustundum sínum í embætti hafi fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra friðlýst jörðina Dranga í Árneshreppi. Þetta hafi gerst á föstudagskvöldi en lyklaskipti urðu á laugardagsmorgni, daginn eftir. Hér kemur fram í frétt á vefmiðlinum Bæjarins besta sem birtist núna fyrir nokkrum mínútum síðan að þetta hafi nú ekki gengið betur en svo að fulltrúi Árneshrepps í starfshópnum sem um þetta fjallaði hafi neitað að styðja friðlýsinguna. Svo er fjallað hér um ýmsa fjárstyrki sem tengjast þessu og þar fram eftir götunum.

Ástæða þess að ég vil taka þetta upp í óundirbúinni fyrirspurn í dag er að formenn ríkisstjórnarflokkanna hafa setið í tvo mánuði og spjallað um hin ýmsu mál og m.a. má lesa út úr stjórnarsáttmálanum að áætlaðar séu töluverðar breytingar á regluverki orkuöflunar hér á landi. Það vakti mikla reiði hjá ýmsum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í aðdraganda kosninga þegar nefndur fyrrverandi umhverfisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, var að friða hin ýmsu svæði. Ég nefni hér Skaftárhreppinn undir kosningar. Hæstv. núverandi innanríkisráðherra gerði alvarlegar athugasemdir við þetta. Þess vegna lítur það alveg hreint ótrúlega út að sjá að að kvöldi síðasta dags í embætti hafi fyrrverandi umhverfisráðherra friðað jörðina Dranga, sem mun ekki vera lítil óumdeild aðgerð og hefur veruleg áhrif á einn tiltekinn virkjunarkost sem í dag er í nýtingarflokki. Vissi hæstv. ráðherra af þessu? Og með hvaða hætti sér hæstv. ráðherra fyrir sér að þetta mál verði leyst eða undið ofan af því?