152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

græn orka.

[13:26]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að óska hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra til hamingju með embættið og velfarnaðar í starfi. Þetta eru í raun mikilvægustu málaflokkar landsins, umhverfis-, orku- og loftslagsmál. Í stjórnarsáttmálanum er mikið talað um grænt atvinnulíf og græn störf. Ég segi ekki að það sé á hverri blaðsíðu, en á bls. 9 segir t.d., með leyfi forseta, um loftslagsmál eða græna atvinnuuppbyggingu:

„Sátt verður að ríkja um nýjar virkjanir til að byggja upp grænt og kolefnishlutlaust samfélag. Mestu skiptir að það verði gert af varfærni gagnvart viðkvæmri náttúru landsins og í takt við vaxandi orkunotkun samhliða útfösun jarðefnaeldsneytis, til að mæta fólksfjölgun og þörfum grænnar atvinnuuppbyggingar.“

Á bls. 10 segir, með leyfi forseta:

„Við munum styðja við og greiða fyrir grænni atvinnuuppbyggingu …“.

Á sömu blaðsíðu segir, með leyfi forseta:

„Gerð verður áætlun um að efla og þróa rannsóknir og þekkingu á sviði grænna lausna í þágu atvinnulífs …“.

Og svona heldur þetta áfram.

Á bls. 13 er fjallað íslenskan landbúnað, fiskeldi og sjávarútveg. Þar segir, með leyfi forseta:

„Með auknum áhuga á hreinum afurðum, sem framleiddar eru með endurnýjanlegri orku og grunnu kolefnisspori á Íslandi, skapast mikil sóknarfæri í framleiðslu matvæla og ýmissa hliðarafurða.“

Spurningin er þessi: Hvernig samrýmist þetta orðalag í stjórnarsáttmálanum sölu upprunaábyrgða? Á síðasta ári, samkvæmt heimildum frá Orkustofnun, voru 87% af raforku á Íslandi framleidd með kolum og kjarnorku. 57% af henni voru framleidd með jarðefnaeldsneyti og 30% með kjarnorku. Ég fæ ekki séð hvernig þetta samrýmist því að fara í græna atvinnuuppbyggingu í landinu þegar 90% af raforku í landinu eru framleidd með kjarnorku og kolum.