152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

græn orka.

[13:28]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Guð láti gott á vita. Mér sýnist að ég sé að verða búinn að fá jafn margar fyrirspurnir í þessum fyrsta fyrirspurnatíma sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og þau fimm ár sem ég var utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, og ég gleðst bara yfir nýtilkomnum áhuga á því að spyrja þann sem hér stendur.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa mikilvægu spurningu. Hann vísar í stóra verkefnið og það er mikilvægt að bæði þingheimur og þjóð séu meðvituð um þau stóru mál sem við erum að fara í, sem eru loftslagsmálin og að fara í græna byltingu. Við höfum auðvitað tekið slíkar byltingar og það hafa verið mjög farsæl skref fyrir íslenska þjóð sem eftir hefur verið tekið og skapar okkur sérstöðu. En nú erum við að fara í önnur og jafnvel enn stærri verkefni. Ég fagna því að hv. þingmaður fari yfir þessi áhersluatriði í stjórnarsáttmálanum og ég vona að um þau verði góð samstaða.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns þá er þetta eitthvað sem við þurfum og hljótum að ræða, burt séð frá því hvaða skoðun menn hafa á því máli, m.a. hér í þessum sal. Ég hef ekki átt marga fundi frá því að ég tók við. Fyrsti fundurinn minn var með Landvernd og Náttúruverndarsamtökum Íslands og þá Landsvirkjun og Samtökum iðnaðarins. Eitt af því sem ég tók upp á fundi mínum með Landsvirkjun voru akkúrat þessar upprunaábyrgðir sem hv. þingmaður vísar til. Það verða að vera mjög sterk rök fyrir því menn fari þá leið. En menn eru löngu farnir þá leið. Burt séð frá því hvaða skoðun menn hafa á því, það eru ýmis sjónarmið í því, þá finnst mér þetta vera mál sem við hljótum að ræða hér og að menn hafi stefnu í. Ég fagna áhuga hv. þingmanns á málaflokknum og áherslunum og sömuleiðis þakka ég hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli.