152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

stuðningur við börn af erlendum uppruna.

[13:33]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það er gaman að koma hérna upp í beinu framhaldi af umræðu um leiðinlegustu þingræður allra tíma. En ég er hér komin til að ræða um þann kafla stjórnarsáttmálans sem fjallar um þarfir barna. Stuðningur við þá hugmyndafræði er svo sannarlega til staðar af hálfu þingsins og í samfélaginu öllu. Stjórnarsáttmálinn víkur sérstaklega að þörfum barna sem tala íslensku sem annað móðurmál og nefnir að þátttaka fólks af erlendum uppruna sé mikilvægur þáttur í vexti efnahagslífsins. Ég vona að ríkisstjórnin setji metnað í að gera orðin í sáttmálanum að raunverulegum aðgerðum en viðurkenni þó að síðasta kjörtímabil hræðir í þeim efnum. Þá lagði ríkisstjórnin nefnilega fram frumvörp með verulega góðum markmiðum en kostnaðurinn og ábyrgðin var skilin eftir hjá sveitarfélögum landsins. Þegar fjármagnið vantar, þegar reikningurinn er sendur annað, þá eru sveitarfélögin vitaskuld skilin eftir í þeirri stöðu, bæði hin fámennari og hin fjölmennari, að sitja eftir með kröfur og sitja eftir með ábyrgð sem þau geta illa axlað. Hvað þýðir það? Hverjar eru afleiðingarnar? Jú, vitaskuld þær að þjónustan lætur bíða eftir sér og skuldir sveitarfélaga aukast.

Einna skýrast var þetta í aðgerðum í þágu fatlaðs fólks, en þar skorti 9 milljarða upp á að dæmið gengi upp. Barnafrumvarp eða farsældarfrumvarp félagsmálaráðherra, sem naut mikils stuðnings í samfélaginu öllu, gerði ekki heldur ráð fyrir öllu því fjármagni sem þurfti til að raungera góðar hugmyndir. Nú er sérstaklega tekið fram í stjórnarsáttmálanum að styðja eigi við börn af erlendum uppruna. Engu að síður tók ríkisstjórnin þá ákvörðun á síðasta kjörtímabili að börn í Reykjavík nytu ekki stuðnings úr jöfnunarsjóði vegna skólastarfs eða kennsla barna af erlendum uppruna. Samt er tæplega helmingur af öllum þessum börnum í Reykjavík. Ég spyr þess vegna hæstv. innviðaráðherra hvort hugur hans standi til þess að ríkisstjórnin fullfjármagni þessi brýnu verkefni og hvort treysta megi því að þegar sveitarfélögin fái verkefninu í fangið þá séu þau skilin eftir í þeirri stöðu að geta axlað ábyrgðina.