152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

stuðningur við börn af erlendum uppruna.

[13:36]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða fyrirspurn og tækifærið til að fara aðeins yfir staðreyndir mála. Það er rétt hjá hv. þingmanni að við leggjum ofuráherslu á það í stjórnarsáttmálanum, og í því sem við höfum verið að gera, að taka vel utan um börnin okkar. Þau eru jú framtíðin og skipta öllu máli. Sú leið sem við höfum farið með farsældarfrumvörpunum naut ekki bara mikils stuðnings í samfélaginu heldur líka á þinginu og þau eru orðin að veruleika og innleiðingin er hafin. Við höfum líka ákveðið að stokka upp í stjórnkerfinu til að tryggja þá samlegð vegna þess að það er jú í leikskólanum og í grunnskólanum sem stærstu skrefin verða tekin í fyrstunni. Það var búið að tryggja fjármagn í fjármálaáætlun til að fara af stað í þessa fjárfestingu, sem hefur verið kölluð ein arðsamasta fjárfesting Íslandssögunnar, alla vega á pari við þær stærstu ef borið er saman við mannvirki, þ.e. að grípa nægilega snemma inn í.

Hv. þingmaður endaði síðan á að fara yfir íslenskukennslu til nýbúa, sem er grundvölluð á skiptingu fjárframlaga til sveitarfélaga, sem er samkomulag frá 1996 sem Reykjavíkurborg hefur nú skorað á hólm þrátt fyrir að við í ráðuneytinu höfum sagt: Við erum tilbúin til að hlusta á það og ræða það við önnur sveitarfélög að það hefur orðið talsverð breyting og þróun og fjölgun í þeim hópi barna af erlendum uppruna sem þurfa á þessu að halda. Við höfum boðist til þess að taka samtal um slíkt en Reykjavíkurborg hefur ákveðið að fara í málaferli við ríkið vegna þess að þeir segja einfaldlega að samkomulagið frá 1996 komi borginni ekki við. Ég er maður orða minna. Ég trúi því líka að þeir sem gera samkomulag á fyrri tímum eigi að standa við þau. Þar er málið statt.