152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

stuðningur við börn af erlendum uppruna.

[13:40]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Það er nauðsynlegt að tala um hlutina eins og þeir eru. Staðreyndir eru staðreyndir. Samkomulagið var gert. Útsvarið sem Reykjavíkurborg innheimtir var stillt af og skiptingin á milli annarra sveitarfélaga var stillt af miðað við það að Reykjavíkurborg, sem er jú mjög stór sem hlutfall af öllum útsvarsgreiðendum á Íslandi og öllum landsmönnum, kæmi jafn sterk út. Það er margsinnis búið að reikna það út. Svoleiðis er það. Það er hins vegar staðreynd að það hefur orðið umtalsverð fjölgun í hópi barna af erlendum uppruna, ekki síst hér á höfuðborgarsvæðinu. Mér fannst málefnalegt að ræða það við Reykjavíkurborg hvort við ættum ekki koma til móts við þann málaflokk. Í stað þess hefur borgin ákveðið að fara í málaferli við öll sveitarfélög í landinu eða gegn öllum sveitarfélögum í landinu með því að fara í mál við ríkið, svo ég orði það nú rétt, og setja í uppnám samkomulag sem allir gerðu árið 1996. Það er staðreyndin.

Það hefur verið vilji af hálfu okkar hjá ríkinu, í ráðuneytinu, sveitarstjórnarráðuneytinu, til að taka þetta samtal. Við höfum gert það margoft. (Gripið fram í.) Niðurstaðan er alltaf sú sama: Stærsta sveitarfélag landsins vill fara með málið til dómstóla til að knýja á um að samkomulagið frá 1996 standi ekki lengur. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Það er ekki það sem önnur sveitarfélög í landinu vilja og þetta hjálpar ekki börnunum í Reykjavík. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Þetta er rangt. Það er hægt að fara samkomulagsleiðir, vilji menn gera það.

(Forseti (BÁ): Ég bið hv. ræðumenn að virða ræðutímann og hv. þingmenn að virða það að það hefur einn orðið í einu, ekki fleiri.)