152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

um fundarstjórn.

[13:42]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég óska yður til hamingju með kjörið og velfarnaðar í starfi. En það hlýtur að valda hæstv. forseta nokkrum áhyggjum nú þegar þing er nýhafið að heyra það hér í þingsal að eitt af umdeildustu málum síðasta kjörtímabils, a.m.k. á sviði umhverfismála, skuli hafa verið afgreitt að því er virðist nánast í skjóli nætur af einum hæstv. ráðherra, þá í öðru embætti reyndar, algerlega án samráðs við þingið, og þar með komið í veg fyrir einn af þeim fáu virkjunarkostum sem höfðu komist í nýtingarflokk, virkjunarkost sem er mikilvægur fyrir alla byggð á Vestfjörðum ekki hvað síst og mikilvægur liður í umhverfisvernd í loftslagsmálum á Íslandi. Að einn hæstv. ráðherra skuli hafa afgreitt þetta án nokkurs samráðs við þingið, án nokkurs samráðs við arftaka sinn, sem kemur greinilega af fjöllum, ekki þó fjöllum Vestfjarða, og gert þetta rétt áður en hann færði sig í annað ráðuneyti getur ekki talist í lagi að mati hæstv. forseta Alþingis. Alþingi hlýtur að fá einhverja aðkomu að þessu máli.