152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

um fundarstjórn.

[13:43]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Alveg burt séð frá því hvað manni finnst um þessa friðlýsingu þá verð ég að taka undir að þetta eru alveg ótrúlega undarleg vinnubrögð. Þau eru auðvitað bara síðasti hlekkurinn í atburðarás sem hófst síðasta vor þegar ráðherrarnir fóru ríðandi um héruð til að borga og friðlýsa og kaupa sér velvild kjósenda í landinu, þegar við í þinginu voru nýbúin að samþykkja breytingar sem gerðu það að verkum að við takmörkuðum möguleika okkar til að ferðast á kostnað ríkisins, sem var bara fínt. En nú hljótum við í framhaldinu að óska eftir yfirliti yfir stuðning, fjárútlát og ferðir ráðherranna frá því að þingi lauk í haust og, að ég hélt, fram yfir kosningar, en greinilega þangað til lyklaskiptin áttu sér stað.