152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

friðlýsing fráfarandi umhverfisráðherra.

[13:44]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég lýsti því yfir í ræðu hér við 1. umr. fjárlaga að það væri ekkert annað í stöðunni en að kalla eftir skýrslu um það með hvaða hætti ráðherrar hefðu deilt út þyrlupeningum — eins og ég vil kalla það, peningum sem er kastað út úr þyrlu yfir landslýð — að gerð verði úttekt á því með hvaða hætti þeim fjárveitingum hefði verið háttað, þá sérstaklega undir lok kjörtímabilsins og þá sérstaklega á þeim tíma sem þingmenn höfðu undirgengist og samþykkt samhljóða, að mig minnir, að engir kostnaðarreikningar yrðu gerðir á þingið. Þá var ríkissjóður skyndilega notaður sem kosningasjóður ríkisstjórnarflokkanna. Ég vil nefna það í þessu samhengi við hæstv. forseta að þessu þarf þá að fylgja einhvers konar yfirlit yfir aðgerðir ráðherra á síðustu stundu, sem ráðherrar geta útfært með reglugerðum eða friðlýsingu eins og í þessu tilviki. Það er algerlega ótækt fyrir þingið að þurfa að lesa sig í gegnum Stjórnartíðindi mörgum vikum (Forseti hringir.) eftir að aðgerðir áttu sér stað í skjóli nætur til að átta sig á því hvað gerðist raunverulega síðustu daga hvers ráðherra í embætti.