152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

friðlýsing fráfarandi umhverfisráðherra.

[13:50]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég óska eftir því að þér bregðist við þeirri kröfu sem hér hefur komið fram um að Alþingi hafi meira eftirlit með aðgerðum hæstv. ráðherra, sérstaklega þó hvað varðar þetta stóra mál, sem hefur verið umdeilt mál í samfélaginu lengi en hafði þó verið leitt til lykta á sínum tíma, varðandi virkjunarkost sem fór í nýtingarflokk af hálfu Alþingis. Hér er ráðherra sem er í raun búinn að missa embættið sitt að nota stöðu sína til að ganga gegn ákvörðun Alþingis. Það hlýtur að vera að hæstv. forseti vilji á einhvern hátt bregðast við þessu. Því miður virðist þetta lýsandi fyrir það hvernig þessi ríkisstjórn er mynduð þar sem ráðherrar fengu einfaldlega í hendurnar einhvers konar uppskrift að því hvað þeir ættu að gera, hafandi ekki haft neina aðkomu að því í hvað stefndi. Annaðhvort hefur sú uppskrift verið samin af embættismönnum eða forystumönnum stjórnarflokkanna. En einhverjir þeirra virðast hafa séð tækifæri í því að fara ólýðræðislega fram (Forseti hringir.) í ráðuneytum sínum áður en þeir tækju við að uppfylla kröfur forystumanna.