152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

friðlýsing fráfarandi umhverfisráðherra.

[13:54]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég vildi aðeins koma hérna upp í framhaldi af orðum hæstv. fjármálaráðherra þar sem hann talar um að þingið hafi næg tækifæri til að veita framkvæmdarvaldinu aðhald. Það er bara ekki rétt. Hér var boðað til kosninga. Við fórum síðan í sumarfrí og svo kom þingið ekki saman fyrr en eftir dúk og disk. Þetta voru fleiri mánuðir þar sem þingið hafði einmitt ekki tækifæri til þess að veita eðlilegt aðhald með framkvæmdarvaldinu. Þess utan hefur verið beðið um skýrslur, var gert hér síðasta vetur, t.d. frá sjávarútvegsráðuneytinu um kvótakerfið og áhrif íslensks kvóta í samfélaginu almennt. Sú skýrsla kom í skötulíki. Það skortir því mikið upp á og er ekki rétt sem kom fram hjá hæstv. fjármálaráðherra að þingið hafi öll völd til þess að veita framkvæmdarvaldinu aðhald. Mér finnst mjög mikilvægt að taka undir það sem hv. þingmenn Miðflokksins hafa nefnt hér, (Forseti hringir.) að það er mjög brýnt að jafna út þann aðstöðumun sem verður þegar svona langt þinghlé er, á milli óbreyttra þingmanna í stjórnarandstöðu annars vegar og svo þeirra sem sitja á ráðherrastóli.