152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

friðlýsing fráfarandi umhverfisráðherra.

[13:58]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé efni sem við þurfum að halda mjög rækilega til haga gagnvart ríkisstjórninni aftur og aftur, að fólk átti sig á þýðingu þess hvaða áhrif þessi vinnubrögð hafa. Þingi var slitið 13. júní. Það kom aftur saman í desembermánuði. Þingið hefur ekki verið í neinni stöðu til að veita ríkisstjórninni aðhald, einfaldlega vegna þess að þannig var búið um hnútana að það var ekki að störfum. Þegar hæstv. ráðherra talar um að þingið hafi næg tækifæri þá er það einfaldlega ekki þannig. Þau verkfæri sem við beitum — við óskum eftir skýrslum og hvað verður um þær? Þær birtast í annarri mynd en þær voru skrifaðar. Nýjasta dæmið um hvernig skipað var í nefndir á vegum þingsins, hver hlutföllin eru þar, verkaskipting og hlutföll sem ekki hafa sést áratugum saman. Það er einfaldlega þannig að maður er alltaf skilinn eftir með þessa tilfinningu, aftur og aftur, að það sé mikill vilji til þess hjá ríkisstjórninni að þingið standi veikt.