152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[15:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að vera sammála hæstv. ráðherra um það að það eru ráðstöfunartekjurnar sem skipta öllu máli. En þá þarf líka að huga að dreifingu þeirra, hvernig þær skiptast á milli mismunandi tekjutíunda eða tekjuhópa í samfélaginu. Það er sama hversu oft ég spyr að því í fjárlaganefnd, minnist á að ráðstöfunartekjur hafi aukist, og minni á að það skipti máli hvernig sú dreifing er, þá fæ ég aldrei svör eða greiningu í kjölfarið á því hvernig ráðstöfunartekjur hafa skipst á milli þeirra sem eru með lægstu tekjurnar og hinna sem eru með hæstu tekjurnar. Það má til dæmis gera ráð fyrir því að ráðstöfunartekjur hærri tekjutíunda hafi hækkað þó nokkuð mikið í kjölfar hækkandi hlutabréfamarkaðar í faraldrinum. Það er augljóst að ráðstöfunartekjur miðtekjuhópanna hafa aukist umfram ráðstöfunartekjur lægstu tekjuhópanna, sérstaklega með tilliti til þeirra breytinga sem verið er að gera varðandi almannatryggingar og réttindi þeirra sem þar eru en það er tekið fram í lögum að hækka eigi þær tekjur a.m.k. í takt við launaþróun eða vísitölu neysluverðs, hvort sem er hærra. Ef launaþróun er lægri en vísitala neysluverðs hækkar lífeyrir almannatrygginga samkvæmt vísitölu neysluverðs. Ef launaþróunin er hærri þá hækkar hann samkvæmt því. Nú er í fyrsta sinn verið að viðurkenna það vanmat sem hefur verið gegnumgangandi undanfarin 20 ár og það er leiðrétt aftur á bak og þá er miðað við vísitölu neysluverðs. En launaþróunin er hærri og það er ekki miðað við hana.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvernig við getum einhvern veginn klórað okkur í gegnum þetta þegar hæstv. ráðherra vísar málinu eitthvað annað. Þið verðið að horfa í ráðstöfunartekjur, gjörið svo vel hér eru ráðstöfunartekjur, (Forseti hringir.) en við fáum aldrei svörin um það hvað þær þýða fyrir hinar mismunandi hópa samfélagsins.