152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[16:06]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er ákveðinn lýðræðishalli í því að heyra aðeins sjónarmið stjórnarandstöðunnar, og vissulega hæstv. fjármálaráðherra þegar hann flutti flutningsræðu sína, í þessari mikilvægu umræðu. Maður veltir fyrir sér hvar allir stjórnarliðarnir eru, hvort þeir séu kannski bara ekkert mættir í vinnuna. Ég sé þá ekki hér í salnum. Þeir eru ekki hér til að hlusta á sjónarmið stjórnarandstöðunnar, það er ekki þannig að þau sitji andaktug að heyra hvað við höfum að segja og hafi þess vegna ekki tekið til máls. Þau eru ekki á mælendaskrá, þau hafa ekki tekið til máls, þau hafa ekki einu sinni notað andsvararétt sinn. Ég trúi því varla að þau hafi engar skoðanir á því hvernig eigi að fara með fjármuni ríkisins á næsta ári. Ég á bara mjög erfitt með að trúa því, virðulegi forseti. Ég kalla eftir skýringum á þessum fjarvistum stjórnarþingmanna.