152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[16:09]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég kem hingað upp til að taka undir þau orð sem hér hafa fallið og eiginlega að lýsa yfir furðu minni. Í ljósi þess að komið hefur fram, í máli forystufólks stjórnarflokkanna, að búast megi við miklum breytingum á þessu fjárlagafrumvarpi og í ljósi þeirra breytinga sem eru að eiga sér stað og þess stutta tíma sem ríkisstjórnin hefur haft, meinta stutta tíma og hvað það nú er, undra ég mig á því að stjórnarþingmenn skuli ekki hafa áhuga á umræðunni og að koma sínum sjónarmiðum að. Ég átta mig á því að þau sitja með tvöfaldan meiri hluta í fjárlaganefnd. Þar er ekki hin eiginlega þinglega umræða. Þar er ekki málstofan út til samfélagsins. Hún er hér. Mér þætti áhugavert að fá að heyra sjónarmið meiri hlutans sem ætlar jú að ná í gegn miklum breytingum á eigin frumvarpi. Hverjar eru þær? Hvað er fólk að hugsa? Eða er þetta samræða sem þolir ekki dagsins ljós? Er það ástæðan fyrir því að hér sitjum við, stjórnarandstaðan, og ræðum málin án aðkomu stjórnarliða?