152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[16:23]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ítreka það sem ég sagði áðan, það hafa verið skilaboð til þingmanna í stjórnarmeirihlutanum, frá þeim sem stýra þingflokkunum, um að taka ekki þátt í umræðunum. Ég hef heyrt þau skilaboð sjálfur með eigin eyrum og hef rætt um það við aðra hv. þingmenn úr þeim flokkum. Þannig að reynið ekki að neita því. Í fjárlaganefnd sitja níu manns. Af þeim eru sex frá stjórnarmeirihlutanum, þrír frá stjórnarandstöðunni. Við erum 63 þingmenn á Alþingi. Við viljum að rödd okkar heyrist líka. Þess vegna er mikilvægt að hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar gefi sér tíma til að taka þátt í þessari umræðu og hlusta á það hvað við höfum að segja.