152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[16:45]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Þetta er einmitt mjög áhugaverð spurning: Hvernig get ég séð í hvað skattarnir mínir fara? Það er einfaldlega mjög flókið, sérstaklega núna þegar búið er að afnema þessar svokölluðu mörkuðu tekjur, eyrnamerktu tekjur, að mestu leyti, eiginlega að öllu leyti. Það þýðir að þó að ríkið sé að taka kolefnisgjald og það fari kannski í einhver kolefnisjöfnunarverkefni þá er ekki alveg bein tenging þar á milli. Við ættum að geta séð það, það ætti að vera augljóst að a.m.k. sú upphæð eigi að fara þarna á milli en t.d. með bensíngjaldið þá fer meira í samgöngur heldur en innheimtist af bensíngjaldinu, þannig að þar er viðbót bætt við. Þá hugsar maður: Allt í lagi, það er annaðhvort ekki verið að taka nægilega hátt kolefnisgjald eða bensíngjald eða eitthvað því um líkt eða það eru einhverjar aðrar ástæður fyrir því. En þær ástæður þurfa þá að vera pólitískar á ákveðinn hátt og það þurfa að vera til útskýringar á því og við fáum einfaldlega aldrei þessar útskýringar. Slíkar útskýringar ættu alltaf að vera til í fjármálaáætlun því að þar setja stjórnvöld fram stefnu sína um útgjöld og líka um tekjur. Þá þarf að útskýra að við ætlum að setja kolefnisgjald til að ná ákveðnum árangri með þeim gjöldum. Og alveg eins með áfengisgjaldið. Kannski er það til þess að fjármagna forvarnastarf. En við sjáum gjaldið hækka núna án þess að neitt meira fari í forvarnastarf. Kannski er það af því að það hefur gengið þó nokkuð vel í forvörnum gegn áfengi, sérstaklega meðal yngra fólks, en það eru enn þá biðlistar hjá SÁÁ t.d. Það virðist ekki vera nein stefnumörkun, bara einhvern veginn: Látum þetta vera eins og það er, tökum allt áfengisgjaldið og nýtum það í vegina. Eða eitthvað því um líkt. Það vantar einmitt útskýringarnar á þessu. Þessar útskýringar þurfa að vera til núna þegar búið er að afnema eyrnamerkingar á sköttum. Og þær vantar.