152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[17:01]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Það er eitt og annað sem mætti nefna hér við 1. umr. en það eru sjö atriði sem mig langar að koma sérstaklega inn á. Fyrst langar mig að koma inn á það sem kom fram í framsöguræðu hæstv. fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssonar, og varðar frítekjumark eldri borgara. Í ræðu hæstv. ráðherra kom fram að kostnaður við það að hækka frítekjumarkið úr 100.000 kr. á mánuði í 200.000 kr. væri um 540 milljónir á ári. Í andsvörum spurði ég hæstv. ráðherra hvort fjármálaráðuneytið hefði reynt að komast til botns í því, með öllum þeim fyrirvörum sem slíkt kallar auðvitað á, að átta sig á tekjuauka á móti af þessari aðgerð. Svarið var á þá vegu að það væri horft til þess að aðgerðin kallaði ekki fram aðrar breytingar á háttum fólks. Það er auðvitað ekki þannig sem þetta atvikast í raunheimum þannig að ég held að það væri skynsamlegt ef hv. efnahags- og viðskiptanefnd myndi kalla til sín sérfræðinga, ég nefni af handahófi prófessor Ragnar Árnason sem hefur rannsakað þessi mál og skoðað ofan í kjölinn, og reyna að ná utan um það hver hin eiginlegu áhrif af breytingu sem þessari eru líkleg til að verða. Mér segir svo hugur um að nettóútgjöld ríkissjóðs af þessari aðgerð verði sáralítil. Þá er alveg litið fram hjá því sem má færa plúsmegin í kladdann hvað varðar heilsufarsleg áhrif og þau félagslegu sem snúa að því að fullorðið fólk geti verið lengur á vinnumarkaði, þau sem bæði vilja og geta. Ég myndi því telja skynsamlegt að hv. efnahags- og viðskiptanefnd tæki þetta til sérstakrar skoðunar úr því að fjármálaráðuneytið hefur ekki gert það.

Ég kom inn á það sömuleiðis í andsvari við hæstv. fjármálaráðherra hver afstaðan væri varðandi skattalega meðhöndlun nýorkubíla og var þá kannski sérstaklega að huga að því með hvaða hætti tengiltvinnbílar, sem nokkuð hefur verið rætt um, yrðu meðhöndlaðir í þessu frumvarpi. Það er horft til þess að stuðningur við þá sé að fasast býsna hratt út um áramót og í byrjun næsta árs, 15. febrúar minnir mig að sé ákveðið viðmið í þeim efnum. Fulltrúar Bílgreinasambandsins hafa farið yfir það með að mínu mati nokkuð sannfærandi hætti að skynsamlegt væri að horfa til þess að tengiltvinnbílarnir myndu njóta ívilnunar enn um sinn, Bílgreinasambandið hefur nefnt tvö ár, á meðan gæði þessara bíla og tækniþróun framleiðanda er að ná brúa það bil sem er á milli fyrstu og annarrar kynslóðar tengiltvinnbílanna og hreinu rafmagnsbílanna. Ég held að það væri skynsamlegt að hv. efnahags- og viðskiptanefnd tæki þó ekki væri nema einn snúning á því að reyna að greina það og kalla til þá sem best þekkja varðandi hvað er að gerast hjá framleiðendum og þar fram eftir götunum, svo að við missum ekki dampinn. Ef það er markmið á annað borð að fasa út bensín og dísil þá held ég að skynsamlegt sé að reyna að halda þeim takti sem viðhafður hefur verið. En í þessu samhengi nefndi hæstv. ráðherra sömuleiðis að það skipti auðvitað lykilmáli að fara að koma tekjuöflunarhlutanum af ökutækjum og umferð í eitthvert forsvaranlegt framtíðarhorf. Í þeim efnum er ég algjörlega sammála hæstv. ráðherra. Sjálfur flutti ég allnokkrar ræður á síðasta kjörtímabili þar sem ég lýsti furðu minni yfir því að þetta hefði ekki gerst og ekki verið í vinnslu á liðnu kjörtímabili. Hæstv. samgönguráðherra þáverandi, núverandi innviðaráðherra, talaði á þeim nótum að þetta væri allt saman í skoðun og það væri verið að huga að þessu. En þegar maður horfir á raunverulega stöðu mála þá virðist vera að þetta sé svona að fara af stað innan fjármálaráðuneytisins núna. Það getur auðvitað verið rangur skilningur hjá mér en mér fannst það liggja í orðum hæstv. fjármálaráðherra að í rauninni sé verið að horfa til þessarar stefnumörkunar núna. Ég vil í því samhengi segja að það hefði þurft að gerast á síðasta kjörtímabili. Það var margbent á að við værum á eftir áætlun eða á eftir því sem æskilegt væri í þeim efnum. Ég lýsi þó yfir ánægju minni með að þessi vinna sé loksins komin af stað og bendi aftur á þau atriði sem snúa að meðhöndlun tengiltvinnbílanna en minni þó jafnframt á, af því hæstv. ráðherra er hér í salnum, að ökutæki og umferð eru býsna hátt skattlögð á Íslandi og að það verði haft í huga við þá stefnumörkun sem verið er að vinna að í fjármálaráðuneytinu.

Þessu til viðbótar vil ég koma inn á Framkvæmdasjóð aldraðra. Þar er enn ein framlengingin á því að tekjur framkvæmdasjóðsins fari til rekstrar. Ég veit að ætlunin var að við værum fyrir allnokkru komin út úr þessari stöðu en erum hér enn þá. Það er nauðsynlegt að skoða þetta í samhengi við það hversu illa hefur tekist að koma út fjárveitingum til nýframkvæmda, til uppbyggingar dvalarheimila svo dæmi sé tekið. Við heyrðum hér dæmi í fjárlagaumræðunni hvernig ekki hefur tekist að koma af stað framkvæmdum í Reykjanesbæ, bara af því að ég man eftir því dæmi í augnablikinu, en þau eru auðvitað fleiri landið um kring. Þannig að þetta þarf að skoðast í samhengi.

Ég verð auðvitað að gera hina árlegu athugasemd mína við hækkun útvarpsgjaldsins. Það hækkar úr 18.300 kr. í 18.500 á hvern gjaldaðila, upp um 2,73%, og þykir ýmsum nóg um forgjöf Ríkisútvarpsins á þessum markaði.

Mig langar að nefna gistináttaskattinn sem er nefndur í frumvarpinu á þeim nótum að ferðaþjónustan fái enn um sinn frí frá þeim skatti og innheimta gistináttaskatts verði felld niður til og með 31. desember 2023, sem sagt rúm tvö ár til viðbótar. Ég held að það ætti á þeim tíma að skoða það vel að fella þennan skatt endanlega niður. Ég held að hann sé skili í sjálfu sér litlu, innheimta hans sé flókin og á köflum ósanngjörn. Það er búið að ganga til aðgerða sem kannski jafna þetta að einhverju marki. Í upphafi var þetta, eins og við þekkjum, sama gjald á nótt á tjaldstæði og á dýrustu hótelum landsins og síðan í hina röndina jók þetta bara flækjustigið sem var mikið fyrir. Ég treysti mér ekki til að vísa í akkúrat hver vann þá úttekt en mig minnir að það hafi verið gerð úttekt á gistináttaskattinum fyrir nokkrum árum, gott ef það var ekki bara ríkisendurskoðandi sem felldi þann dóm að þetta væri með óhönduglegustu gjaldstofnum ríkisins og flækjustig og kostnaður við innheimtu væri að hlutfalli með því mesta sem þekktist á nokkrum gjaldstofnum.

Síðan til viðbótar er auðvitað ástæða til að nefna að horft er til þess að hækka kolefnisgjald um 2,5%. Ég hef ásamt félögum mínum í Miðflokknum lagt fram tillögu um að lækka það gjald á hverju ári undanfarin fjögur ár og ég velti fyrir mér hver rökin eru fyrir því að láta þetta gjald fylgja hinni almennu 2,5% hækkun. Ef hæstv. fjármálaráðherra heyrir í mér þá verð ég að spyrja: Kom ekki til greina að lækka gjaldið í ljósi þess að fagráðherrar umhverfismála hafa ekki getað greint árangur af gjaldinu af neinni vissu á liðnu kjörtímabili? Það hefur ítrekað verið spurt um það. Ég held að það hljóti að enda á þeim stað með gjald sem þetta, sem er ætlað til þess að hafa áhrif á starfsemi fólks og fyrirtækja og framgöngu fólks og fyrirtækja og þar sem fagráðherrar þeirra málaflokka hafa á fjórum árum ítrekað þurft að svara því til að það sé erfitt að leggja mat á árangur sem af gjaldinu hlýst, að við hér á þingi veltum því fyrir okkur að stíga til baka hvað kolefnisgjaldið varðar og vonandi að endingu fella það niður, enda að mörgu leyti ósanngjarn skattstofn eins og honum er stillt upp.

Að endingu langar mig til að koma inn á almennt atriði sem snýr að árlegri hækkun til samræmis við verðlag. Nú er miðað við 2,5% og ég velti fyrir mér ef hæstv. ráðherra heyrir í mér: Kom ekki til greina að sleppa þessari verðlagsuppfærslu? Við horfum fram á hækkandi verðbólgu sem er keyrð áfram af þáttum sem við þekkjum, verðhækkunum erlendis frá, húsnæðisverði og ýmislegt mætti nefna. Ég er ekki viss um að það sé skynsamlegt að ríkisstjórnin leggi sitt lóð á vogarskálarnar með því að láta þessa gjaldaliði alla hækka með sjálfvirkum hætti. Bendi ég þá sérstaklega á að það væri mönnum í lófa lagið að láta kolefnisgjaldið og til að mynda útvarpsgjaldið ekki taka þessa hækkun enda engin augljós rök í hvorugu tilvikinu. Það er vitað að hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson tók a.m.k. eitt ef ekki tvö ár á kjörtímabilinu 2013–2016 þar sem sjálfvirk gjaldahækkun var aftengd. Ég held að það væri skynsamlegt í núverandi ástandi að gera slíkt hið sama í þessari atrennu þannig að öll þessi gjöld sem hækka með sjálfvirkum hætti núna hækki ekki. Bara svona til að nefna það þá eru býsna mörg atriði sem þarna falla undir; kolefnisgjaldið, áfengis- og tóbaksgjöld, almennt vörugjald af bensíni, sérstakt vörugjald af blýlausu bensíni, sérstakt vörugjald á hvern lítra af öðru bensíni, olíugjaldið hækkar, kílómetragjald og svo mætti lengi áfram telja í tengslum við akstur og umferð. Bifreiðagjaldið hækkar, gjald vegna kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og skilavald og svona mætti áfram telja. Ég held að það hefði verið skynsamlegt hjá núverandi ríkisstjórn að senda þau skilaboð til þeirra sem reka starfsemi sína á grundvelli þessara gjalda að nú þyrfti sú starfsemi að sníða sér stakk eftir því að 2,5% hækkunin kæmi ekki fram.

Í lokin vil ég benda á eitt, og ég á nú eftir að skoða það og geri það kannski milli umræðna og mögulega ef maður lítur inn sem áheyrnarfulltrúi í efnahags- og viðskiptanefnd, en hér er gjaldskyld losun gróðurhúsalofttegunda. Hún fer upp um 68% á milli ára, sýnist mér, úr 3.430 kr. fyrir hvert tonn losunar í 5.767 kr. Er horft til þess að þetta sé miðað við þróun á verði slíkra eininga á markaði. Í þessu samhengi langar mig að rifja upp umræðu sem ég átti við hæstv. forsætisráðherra fyrir sennilega réttu ári síðan um hvort búið væri að tryggja og kaupa þær losunarheimildir sem okkur var þá uppálagt að kaupa til að jafna þá umframkeyrslu sem við höfum undirgengist. Þá var svarið nei og ég veit að svarið við þeirri spurningu var nei þegar nokkuð var liðið á árið 2021. (Forseti hringir.) Ég velti fyrir mér, horfandi á það að verð þessara eininga hefur hækkað um 68% á milli ára: (Forseti hringir.) Er enn ekki búið að festa þessar einingar eða er markmið í sjálfu sér að sem mestur kostnaður lendi á ríkissjóði vegna þessa?