152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[17:41]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég hjó sérstaklega eftir því sem hv. þingmaður sagði í upphafi ræðunnar um dræma þátttöku stjórnarliða í þessari umræðu hér, raunar enga þátttöku stjórnarliða í þessari umræðu hér. Það hefur ekki verið eitt andsvar og það hefur ekki verið ein ræða að undanskildum hæstv. fjármálaráðherra sem auðvitað er tilneyddur til að flytja þetta mál hingað inn á þing. En það virðist enginn annar stjórnarliði hafi áhuga á að taka til máls í 1. umr. um þennan bandorm.

Nú er hv. þingmaður nýbúin að ljúka störfum sem starfsaldursforseti sem segir sitt um starfsreynslu hv. þingmanns og ég velti fyrir mér hvað hún les í þetta áhugaleysi og þetta þátttökuleysi hjá meiri hlutanum. Er það það að þau hafa ekki áhuga á umræðu um þetta? Er það af því að þau vilja ekki ræða mikilvæg málefni eins og það sem hv. þingmaður ræddi í lok ræðu sinnar, áfengisgjöldin og hvort það sé réttmætt að halda því áfram? Eða t.d. kolefnisgjöldin sem við erum vissulega að ræða hér líka og hvernig við viljum beita þeim stýritækjum til framtíðar? Er þetta eitthvað sem á einfaldlega ekki upp á pallborðið hjá þeim eða er eitthvað óþægilegt að ræða það eða hafa þau bara engan áhuga á því sem minni hlutinn er að segja? Ég upplifði eftir að þetta þing hófst mjög sterk skilaboð um að það skipti meiri hlutann takmörkuðu máli hvað okkur finnst. Þau ætli sér hvort sem er bara ná sínu fram. Þar af leiðandi getum við hjalað hér í fleiri klukkustundir án þess að þau veiti því nokkurt viðnám, aðalvinnan fari jú fram í nefndum, þar munu þau ná sínu fram og því skipti engu máli að taka þátt í umræðunni við einhvern minni hluta sem hvort eð er verður ekkert hlustað á.