152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[17:43]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að muna að setja „starfs“ fyrir framan „aldursforseti“. Ég held að ég væri samt ekki sanngjörn ef ég myndi koma hingað upp og úthúða öllu því sem meiri hlutinn er að gera, ef ég sýndi því ekki einhvern skilning. Hins vegar þegar við horfum á það þá hefur þetta, þótt ég ætli ekki að segja nákvæmlega þetta, oft komið fyrir en þá hefur það reyndar verið í öðru umhverfi. Þingið kom tiltölulega fljótt saman eftir kosningar. Það var meiri virkni og dínamík í þinginu sjálfu. Við erum núna með ríkisstjórn sem tekur allan kaflann frá sjálfri sér á síðasta kjörtímabili sem snertir virðingu þingsins. Það er hægt að lesa ýmislegt út úr því. Síðan þegar öll þessi litlu púsl eru sett saman, eins og bara hvernig er raðað í nefndir, þá er þetta í fyrsta sinn í meira en 30 ár sem þeir beita þessu af fullum þunga og það er undir forystu Vinstri grænna sem það er gert.

Já, það er hægt að lesa alls konar út úr þessu en þegar upp er staðið er þetta dínamískur staður og þótt vissulega sé það þannig að við í stjórnarandstöðunni höldum uppi starfi þingsins, það sést á umræðunni í dag, við áttum okkur á því, verum hreinskilin með það, þá skulum við líka binda vonir við að meiri hlutinn mæti hér til leiks við 2. umr. Það eru svo mörg mál þar sem þetta snýst ekki bara um gagnrýni heldur frekar að rýna til gagns, mér finnst það fyrra neikvæðara. Mér þætti svo gott að fá umræðu við t.d. þingmenn úr umhverfis- og samgöngunefnd: Hvernig sjáið þið, kæru vinir, okkur beita kolefnisgjöldunum? Hvernig sjáið þið t.d. áfengisgjaldið, sem við vorum að ræða áðan? Svo ég tali ekki um, (Forseti hringir.) og ég kem að því í síðara andsvari, hvernig við ræðum (Forseti hringir.) þróun á starfsgetumatinu sem hefur m.a. áhrif á útgjöld ríkisins.

Þannig að já, það margt skrýtið, (Forseti hringir.) margt sérstakt. En þetta er, enn og aftur, mjög dínamískur staður.