152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[17:46]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég lagði sérstaka áherslu á „starfs“ í heitinu „starfsaldursforseti“ og það var einungis til að leggja áherslu á þingreynslu hv. þingmanns og til þess einmitt að fá að grennslast aðeins fyrir um hana. En vegna þess að hv. þingmaður talaði um kolefnisgjaldið þá vil ég gera umhverfisstefnu og loftslagsstefnu sitjandi ríkisstjórnar að umtalsefni í síðara andsvari. Hv. þingmaður var að lýsa því sem mér finnst vera ákveðin tilhneiging í stjórnarmeirihlutanum sem er að vera með alls konar en vera kannski ekki með það neitt sérstaklega úthugsað og heldur ekki endilega með það sett þannig upp að því sé ætlað að ná einhverju ákveðnu markmiði. Mig langar að nefna dæmi. Þegar við vorum að ræða gildandi fjármálaáætlun núna í vor þá rak ég augun í það að á málefnasviði þáverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kom fram að til stæði að stefna að samdrætti í losun frá landnotkun sem væri umtalsvert hærra markmið heldur en finna mætti í nýsamþykktri loftslagsáætlun stjórnvalda. Það var sem sagt þannig að ríkisstjórnin hafði gefið út rosalega flotta áætlun um samdrátt í losun og hvað hún ætlaði að gera í loftslagsmálum. Svo kom áætlun bara nokkrum mánuðum síðar, fjármálaáætlun þar sem voru enn metnaðarfyllri markmið. Ég hugsaði með mér að þetta væri frábært og spurði hæstv. ráðherra hvernig stæði á þeim mun. Væri það svo að ráðuneytið hefði tekið sjálfstæða ákvörðun um að vera svona miklu metnaðarfyllra en loftslagsáætlun stjórnvalda gerði ráð fyrir? Þá kom svarið frá hæstv. ráðherra: Nei, hann vissi ekki hvers vegna það væri munur og ætlaði að grennslast fyrir um það. Ég fékk svo aldrei nein svör um það. Það sem ég las út úr þessu var (Forseti hringir.) að það væri bara slumpað á eitthvað og það sett í þessa áætlun. Þetta er sú tilhneiging sem ég er að vísa til, að gera bara eitthvað (Forseti hringir.) og sjá svo til hvort það standist. Þetta þekkir hv. þingmaður líka þegar kemur að sálfræðiþjónustu svo að dæmi sé tekið.