152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

skattar og gjöld.

4. mál
[18:24]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Það er tvennt sem mig langar að ræða við hæstv. ráðherra. Annars vegar er það frádráttur frá tekjuskattsstofni vegna hlutabréfakaupa. Mér líst í sjálfu sér ágætlega á þetta úrræði og allt í góðu með að framlengja það. En vegna þess að úrræðið hefur staðið yfir frá 2016 og er að klárast núna og í greinargerð kemur ekkert meira fram heldur en að úrræðið geti haft mikla þýðingu fyrir slík fyrirtæki þá velti ég fyrir mér hvort það hljóti ekki að liggja að baki einhver greining og hvort ráðuneytið hafi ekki eitthvað meira fyrir sér en að það telji að það geti verið gott að þetta haldi áfram. Væntanlega liggur eitthvað fyrir um þau áhrif sem úrræðið hefur haft þessi fjögur ár sem það hefur verið í gildi. Ég velti því fyrir mér hvort hæstv. ráðherra gæti aðeins farið í gegnum hvað liggi að baki ákvörðun um að framlengja þetta úrræði.

Síðan langaði mig að ræða aðeins um lögaðila í almannaheillaskrá og þá lagabreytingu sem verið er að leggja til með frumvarpinu, líka í samhengi við að verið er að breyta skráningargjaldi hjá félögum sem starfa til almannaheilla og hafa starfsemi yfir landamæri. Hæstv. ráðherra vísaði vissulega í að FATF-samtökin hefðu bent á að þetta væru félögin sem væru hvað viðkvæmust fyrir misnotkun vegna peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka og þess vegna væri verið að setja allt þetta regluverk í kringum félög til almannaheilla. Ég vildi því spyrja hæstv. ráðherra: Nú er verið að bæta inn ákveðnum skilyrðum til að félag fái þessa skráningu en hvað er verið að gera til að fylgja því eftir að það sé einmitt ekki verið að misnota félög til almannaheilla? Hvað er ráðuneytið að gera og hvað er það í okkar gangverki sem tryggir að ekki sé verið að misnota félög, sérstaklega þau sem eru með starfsemi yfir landamæri? Hvernig er eftirliti með því háttað?