152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

fjármálastefna 2022 - 2026.

2. mál
[18:49]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir þessa yfirferð. Mig langaði að beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvað muni taka við árið 2026. Telur hæstv. fjármálaráðherra skynsamlegt að skulda- og afkomureglan taki við af fullum þunga þá? Ég bendi á þetta í samhengi við það að miðað við núverandi forsendur og stöðu skulda, eins og þær koma fram í framlagðri stefnu 2026, eru það um 46–47% af landsframleiðslu sem þarf þá strax að minnka um 5% á því ári, til að standast reglur. Ef mér reiknast rétt til eru það um 70 milljarðar kr. sem þurfa strax að fara í skuldaniðurgreiðslu — 70 milljarðar kr. í skuldaniðurgreiðslu ef reglurnar falla til af fullum þunga og til viðbótar gætu mögulega komið, eins og nú er í áætlun, afkomubætandi ráðstafanir. Þykir hæstv. ráðherra þetta of bratt? Telur hæstv. ráðherra mögulega skynsamlegra að reglurnar yrðu innleiddar í skrefum eftir þetta mikla áfall núna og í ljósi þess að forsendur þessarar stefnu voru í raun brostnar fyrir Covid?