152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

fjármálastefna 2022 - 2026.

2. mál
[18:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru gríðarlega mikilvægar vangaveltur. Ég er algerlega sammála því að við megum ekki vanrækja það að fjárfesta í innviðum og við höfum ekki haft almennilega getu í allt of langan tíma til að meta hvert fjárfestingarstig hins opinbera er. Við erum smám saman að byggja upp getu til að greina það betur og okkur hefur ekkert gengið allt of vel að koma öllum fjárheimildum út undanfarin ár, það á t.d. við um yfirstandandi ár. Við höfum tryggt gríðarlega miklar fjárheimildir til fjárfestinga en það hefur ekki gengið nægilega vel að mínu mati að koma þeim öllum til vinnu. En það er grundvallaratriði að fjárfest sé í hagkerfinu.

Það er annað sem skiptir líka máli hér vegna þess að við ræðum mjög oft um stóru kerfin okkar, hvort sem er heilbrigðiskerfið eða almannatryggingakerfið. Staðreyndin er sú að við höfum látið tilfærslukerfin vaxa svo mikið á undanförnum árum, og við höfum verið með það sem pólitískt áherslumál að gera betur við þá sem þurfa að treysta á þessi kerfi, að svigrúmið til fjárfestinga hefur dregist saman. Við þurfum að gera það aðeins upp við okkur hvernig við ætlum að forgangsraða á milli þessara stóru mikilvægu þátta. Hvað ætlum við að nota tilfærslukerfin mikið til þess að lyfta undir með þeim sem þurfa á stuðningi að halda og hversu langt er hægt að ganga áður en við höfum gengið svo á svigrúm ríkisins til fjárfestinga að ekki verði við það unað? Hvort er mikilvægara til lengri tíma litið? Þetta eru gríðarlega mikilvægar spurningar. Það er líka eitt sem skiptir máli, þegar við erum að horfa á skuldahlutföllin, og það er að vinna markvisst að því, og það verður eitt af mínum áherslumálum á þessu kjörtímabili, að tryggja að engar hindranir séu til staðar fyrir ríkissjóð til að fjármagna þessar skuldir sínar. Við höfum of langa sögu af því að borga sérstakt álag á íslensku ríkisskuldirnar. Þegar við erum að bera okkur saman við aðrar þjóðir í skuldahlutföllum verðum við líka að horfa á vaxtabyrðina sem leiðir af skuldunum og horfast í augu við það að skuldir okkar eru og hafa að jafnaði verið dýrari (Forseti hringir.) en sambærileg skuldahlutföll kosta aðra ríkissjóði. Á þessu eru tæknilegar, markaðslegar og ýmsar aðrar skýringar (Forseti hringir.) sem við þurfum að ræða og takast á við þar sem það er hægt.