152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

fjármálastefna 2022 - 2026.

2. mál
[18:57]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta ótrúlega skemmtileg og áhugaverð umræða sem á sér stað hér, t.d. orðaskiptin hér síðast. Það er algjörlega hárrétt að vaxtabyrði okkar Íslendinga er hlutfallslega meiri miðað við aðrar þjóðir, hún er þyngri. Stóri fíllinn í postulínsbúðinni er að okkar mati auðvitað gjaldmiðillinn. Það er náttúrlega ein stærsta breytan í þessu. Við erum ekki að fara að breyta því núna, því miður. En mig langar að taka undir að það skiptir gríðarlega miklu máli að horfa á hvernig við ætlum að útbúa ríkissjóð, hvernig við ætlum að greiða niður skuldir og hvort við eigum að greiða niður skuldir. Ég held einmitt að sagan sýni að bæði í hruninu og síðan núna fyrir þetta áfall hafi komið sér vel að það var búið að búa í haginn. Það var búið að greiða niður skuldir. Það hafa verið pólitísk átök hér í gegnum tíðina um hvort við ættum að greiða niður skuldir eða ekki, en ég held að það hafi skipt máli upp á þau viðbrögð sem við gátum sýnt í þessum tveimur stóru efnahagslegu áföllum sem dunið hafa yfir þjóðina.

Þess vegna langar mig að spyrja í tengslum við fjármálastefnuna, og það er gott að þingið getur gefið sér tíma til að ræða þetta af því að þetta eru svona stóru breiðu línurnar. Mig langar að spyrja í ljósi stjórnarsáttmálans, langar að fá svar við því hjá hæstv. fjármálaráðherra: Sér hann fram á það að útgjöld ríkisins muni aukast á grundvelli stjórnarsáttmálans og þeirra fyrirheita sem þar eru?

Mig langar líka í öðru lagi að spyrja, miðað við hagvaxtarspána og síðan það vaxtahækkunarferli sem við erum í þá sjáum við fram á að hagvöxtur verði minni en vextir: Hvernig og hvaða leiðir sér hann fram á, það væri gott ef hann gæti nefnt dæmi, að við getum farið til að vaxa út úr vandanum þegar staðan er þessi?

Í þriðja lagi eru spurningar um sölu ríkiseigna. Ég styð það eindregið að við höldum áfram sölunni á til að mynda Íslandsbanka, en mig langar að fá aðeins skýringar hjá hæstv. ráðherra. Hvernig sér hann að andvirðinu verði varið? Verður það til að lækka skuldir eða fara í frekari fjárfestingu í innviðum á vegum ríkisins?