152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

fjármálastefna 2022 - 2026.

2. mál
[18:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst um sölu Íslandsbanka. Salan mun einfaldlega skapa svigrúm fyrir ríkissjóð til að fjármagna sig og þar með þá fjármagna fjárfestingar og draga úr vaxtagjöldum sem eykur enn frekar svigrúmið. Þannig að já, við verðum áfram með hallarekstur og verðum ekki með frumjöfnuð allt þetta áætlunartímabil. Það verður ekki fyrr en í lokin sem við náum frumjöfnuði. En það er augljóst að sala bankans mun auka svigrúmið.

Stuttlega varðandi vextina þá hafa verið ýmsar ástæður fyrir því að ríkissjóður hefur ekki notið nægilega góðra kjara að mínu áliti. Eitt af því hefur varðað uppgjör á fjárfestingum erlendra aðila á íslenska markaðnum. Svo verð ég bara að segja alveg eins og er að mér hefur þótt sem íslenska ríkið njóti ekki sanngjarnra kjara, þegar borið er saman við aðrar þjóðir, sem fjárfestingarkostur þegar við horfum til landsframleiðsla á mann, horfum til skuldastöðunnar, horfum til hagvaxtarhorfanna, horfum til menntunarstigs þjóðarinnar, horfum til auðlindanýtingar, ég tala nú ekki um það hvernig við höfum fjármagnað lífeyriskerfi okkar, langtímaskuldbindingar ríkissjóðs. Allt þetta, skynsamleg nýting auðlindanna, græna orkan o.s.frv., ætti að gefa tilefni til að ætla að ríkissjóður Íslands væri mjög álitlegur fjárfestingarkostur í krónum fyrir erlenda, alþjóðlega fjárfesta. Það hefur átt sér stað töluvert mikil breyting þar sem hlutfall erlendra fjárfesta í íslenskum krónum, ríkisskuldabréfum, hefur dregist saman og mér finnst það vera vísbending um að við höfum eitthvert verk að vinna þarna.

Ég sé ekkert sérstakt sem bendir til þess að útgjöldin þurfi nauðsynlega aukast mikið miðað við stjórnarsáttmálann. Eitthvert svigrúm verður þó að vera til þess að þessi raunvöxtur, sem ég ræddi um hérna áðan, fari í að uppfylla slík markmið. En við hljótum líka að horfa til þess að nýta peningana betur og það hlýtur að vera forgangsatriði að tryggja góða nýtingu, sérstaklega eftir jafn mikla útgjaldaaukningu og hefur verið undanfarin ár.