152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

fjármálastefna 2022 - 2026.

2. mál
[19:01]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég get alveg tekið undir vangaveltur hæstv. ráðherra. Af hverju er ekki verið að fjárfesta meira? Af hverju fáum við ekki í ríkari mæli betri vaxtakjör? Betri lánskjör fyrir ríkissjóð? Svar okkar í Viðreisn er að ein af ástæðunum, ég er ekki að segja að það sé sú eina, er m.a. gjaldmiðillinn og hversu mikilvægt er að vera með trúverðugan, stöðugan gjaldmiðil. Okkar gjaldmiðlasaga er frekar mikið meira rússíbani en þokkaleg lína og það er ekki endilega aðlaðandi, hvorki fyrir þá sem eru til í að lána okkur né þá sem ætla að fjárfesta. Ég tek undir áhyggjur varðandi fjárfestingarkostinn sem Ísland er. Því til viðbótar er raungengið, og þá kannski staða útflutningsatvinnuveganna núna, frekar sterkt. Miðað við spár bankanna er það eitthvað sem er að styrkjast. Það veldur mér viðbótaráhyggjum um hvernig við ætlum að halda áfram að vaxa út úr vandanum ef útflutningsgreinarnar eru kannski í veikari stöðu en árið áður til þess að standa undir hagvextinum sem við þurfum svo mjög á að halda.

Mig langar að spyrja: Skildi ég hæstv. ráðherra rétt að það verði eitthvert örlítið útgjaldasvigrúm? En fyrst og síðast þarf að spyrja hvernig við ætlum að nýta krónurnar, fjárfestinguna, betur, að fá að vita í hverju við erum að fjárfesta. Ef svo er, mun þá ráðherra koma fram með ríkari stýritæki, árangursmælingar, til að vita í hverju við erum raunverulega að fjárfesta, hvort sem er í velferð, innviðum, menntun eða öðru?