152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

fjármálastefna 2022 - 2026.

2. mál
[19:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég get alveg verið sammála hv. þingmanni þegar kemur að því að það að fjárfesta í íslensku krónunni er ekki það sama og að fjárfesta í evrunni eða dollara eða einhverjum af þessum stóru myntum. Ég held hins vegar að þegar við berum íslenska hagkerfið og styrk þess saman við sambærileg lönd, hvort sem er innan OECD eða hvort við horfum til myntsvæða eða annað, þá eru horfurnar á Íslandi býsna góðar. Við erum með líffræðilega sterka stöðu, þó að við séum eldast erum við yngri en flestar þessara þjóða. Ég nefndi líka lífeyrissjóðakerfið hérna áðan, ég nefndi hagvaxtarhorfurnar, og ég nefni bara tæknistigið, við erum núna að leggja nýjan gagnastreng til útlanda, við erum með ljósleiðaravæðingu á Íslandi sem er umfram allt það sem þekkist annars staðar og þessa grænu ímynd. Það er bara svo margt sem segir manni að við höfum sterka stöðu og hér erum við að ræða fjármálastefnu sem er til vitnis um að við höfum tekið allt varðandi opinberu fjármálin til endurskoðunar og erum að vinna það inni í nýjum lagaramma. Þetta eru allt sölupunktar sem ættu að vera álitlegir fyrir alþjóðlega fjárfesta sem að jafnaði eru ekki að velta fyrir sér svona skammtímasveiflum á gengi gjaldmiðla heldur horfa til lengri tíma.

Þetta er ég bara að nefna í tilefni af því að hlutfall erlendra fjárfesta í íslensku krónunni er með lægsta móti um þessar mundir. Það er ákveðið umhugsunarefni, sérstaklega ef maður skoðar vaxtamuninn og vaxtabyrðina hjá ríkissjóði Íslands og öðrum þjóðum.

Hvernig getum við mælt og fylgst vel með og hvaða stýritæki getum við haft til að skoða útgjaldahlið ríkisfjármálanna? Við erum með ýmis umbótaverkefni í gangi og þar fyrir utan auðvitað með margt sem varðar opinberu þjónustuna, eins og það sem er verið að fjármagna í gegnum island.is. En ég held að það verði bara að viðurkennast að við getum gert svo miklu betur með því að greina gögnin sem ríkið býr yfir. Og ef við getum notað bara vefinn tekjusagan.is sem eitt lítið dæmi um upplýsingar (Forseti hringir.) sem við getum komið betur á framfæri á grundvelli gagna sem við þegar eigum.

Sama gildir um velsældarmælikvarðana, (Forseti hringir.) þetta er framsetning á gögnum sem við þegar eigum. (Forseti hringir.) Við eigum að gera miklu meira í að greina gögn og spyrja hvernig við náum markmiðum okkar.