152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

fjármálastefna 2022 - 2026.

2. mál
[19:32]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Forseti. Mig langar að halda áfram að tala um fátækt. Fátækt er reyndar orð sem virðist vanta, bæði í þessa fjármálastefnu og í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar og kemur aðeins einu sinni fyrir á 350 blaðsíðum fjárlagafrumvarpsins. Það er von mín að þeir stjórnarliðar sem hér eru hlusti á þessi orð og bæti þar kannski úr, því að fátækt er nokkuð sem við eigum ekki að þurfa að upplifa á Íslandi.

Ég naut þess heiðurs á árunum 2018–2020 að sitja sem varamaður í stjórn Rauða krossins á Íslandi, en á þeim tíma ákváðu þau mikilvægu samtök að stofna og reka sárafátæktarsjóð. Seta mín þarna veitti mér ákveðna innsýn í líf fátækra á Íslandi, innsýn sem fæst okkar sem hér sitjum höfum nokkurn tíma fengið. Yfirgnæfandi meiri hluti þeirra sem fengu úthlutað úr sárafátæktarsjóði Rauða krossins var fólk sem einnig fékk fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögunum og sumir voru einstaklingar sem af ýmsum ástæðum detta á milli kerfa og eru tímabundið alveg tekjulausir. Dæmi um slíkt eru einstaklingar sem bíða eftir rétti til atvinnuleysisbóta og hafa fullnýtt rétt sinn til endurhæfingarlífeyris. Annað dæmi eru einstaklingar sem hafa komið hingað til lands og unnið sem verktakar, slasast við störf sín og eiga ekki nein réttindi hér á landi. Þá má nefna líka þá sem nýkomnir eru með stöðu flóttafólks hér og eru enn að fóta sig í nýju samfélagi. Fólk í slíkum aðstæðum stendur oft frammi fyrir miklum kostnaði og þarf eins og aðrir að útvega sér húsnæði og koma undir sig fótunum. Þessi hópur er oft mjög berskjaldaður og í viðkvæmri stöðu, enda með lítið tengslanet að baki.

Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga er mismunandi og margir þeirra sem þiggja framfærslu frá sveitarfélögum eiga ekki rétt á fullri aðstoð. Með ört hækkandi verði á almennum leigumarkaði er ótrúlega erfitt fyrir fólk að sjá sér farborða, ég tala nú ekki um þau sem þurfa að borga leikskólagjöld, kaupa fatnað á börn og annað. Það er auðvelt fyrir hæstv. ráðherra að tala um auknar ráðstöfunartekjur fyrir fólk á sama tíma og hann gerir sífellt fleiri hluti í kerfinu gjaldskylda. Þessi aukna gjaldskylda gerir nefnilega það að verkum að fleira og fleira fólk sem lifir við sárafátækt neitar sér um mikilvæga og oft lífsnauðsynlega þjónustu. Þetta sýndi sig innan hóps umsækjenda til sárafátæktarsjóðs Rauða krossins. Margir þeirra neita sér um það sem fæst okkar telja til munaðar eins og dömubindi, læknisrannsóknir, lyf og strætóferðir. Á þeim árum sem Rauði krossinn starfrækti sárafátæktarsjóðinn kom í ljós að stór hópur fólks býr við afar bág kjör hér á landi. Það er mikilvægt að til séu úrræði til að takast á við þetta ástand hjá því fólki sem býr við sárafátækt, hvort sem um er að ræða tímabundna eða langvarandi fátækt. Að fólk þurfi að reiða sig á styrki og stuðning á borð við þann sem Rauði krossinn veitti er ekki úrræði sem dugar til langframa. Þar þarf ríkið að taka forystu. Það á enginn að þurfa að búa við sárafátækt í okkar ríka landi. Þessi hópur er sannarlega til og aðgerða er þörf nú strax.

Þar sem við höfum hér nokkra stjórnarmeðlimi, hv. þingmenn og hæstv. ráðherra, þá langar mig að spyrja: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að útrýma sárafátækt á Íslandi á tímabili þessarar fjármálaáætlunar?