152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

fjármálastefna 2022 - 2026.

2. mál
[19:38]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér eitt af stærstu málum komandi ára, myndi ég segja, þ.e. fjármálastefnu fyrir árin 2022–2026. Ég hef áður í þessum sal flutt ræður um mikilvægi laga um opinber fjármál — okkur hættir til að tala um nýju lögin um opinber fjármál, þau eru kannski ekki svo ofboðslega ný lengur, en nýleg eru þau — og hvað breytingin varð gríðarlega mikil við þessa löggjöf. Að sjá núna hvernig þingið, sem er jú fjárlagagjafinn, fjallar um fjármál ríkisins og efnahagsmál allt árið. Við vorum að klára hér umræðu um fjárlög og frumvörp þeim tengd áðan og nú fjöllum við um fjármálastefnuna, sem á reyndar að koma fram einu sinni á kjörtímabili. Ég hef samt sem áður fengið tækifæri til að taka þátt í nokkrum umræðum um fjármálastefnu því að henni hefur jú verið breytt á síðustu misserum. Svo er það fjármálaáætlun sem við fjöllum um í byrjun næsta árs. Ég vil ítreka það fyrir þá sem ekki til þekkja hversu mikilvæg þessi bragarbót er á allri umgjörð um bæði lýðræðislega umræðu um fjárlög og efnahagsmál ríkisins, en líka hversu miklu faglegri og betri þessi vinnubrögð eru öllsömul.

Ég hef nefnt það áður að ég kom inn sem varaþingmaður rétt fyrir jól 2004 eða 2005 þar sem verið var að takast á um einhverja 500 þúsundkalla hér og milljón hér til einhverra góðgerðaverkefna víða um landið. Ramminn utan um fjármál ríkisins er í svo miklu betra horfi nú en þá, sem betur fer.

Þegar ég les í gegnum þessa fjármálastefnu þá langar mig eiginlega að fara að tala enn þá meira um framtíð og horfa aðeins lengra inn í framtíðina. Mig langar aðeins að velta því upp hér, vegna þess að ég veit að erum að koma á laggirnar framtíðarnefnd við þingið, að þó að það sé mikil framför að við höfum hér stefnu til ársins 2026 núna, þá er 2026 næstum því bara á morgun, svona í stóra samhengi hlutanna. Þannig að hér í þessari stefnu er vissulega verið að varpa fram þeim stóru áskorunum sem við stöndum frammi fyrir sem samfélag; það er auðvitað öldrun þjóðarinnar, sjálfvirknivæðing og þær miklu samfélagslegu breytingar sem eru að eiga sér stað. Mig langaði að nefna að ég held að það væri ástæða til þess að taka þá umræðu jafnvel lengra hér í þingsal um það hvernig við ætlum að takast á við þessar risastóru áskoranir.

Mig langar líka að koma inn á mikilvægi þess að við séum núna komin með okkar velsældarmarkmið eða velsældarvísa. Ég var svo heppin að fá að taka þátt í vinnu á síðasta kjörtímabili um mælikvarða um hagsæld og lífsgæði og við vitum það flest hver að Ísland, ásamt fleiri þjóðum, hefur tekið upp það verklag að horfa á velsæld. Við sjáum það bara að í síðustu fjármálastefnu var fjallað um orðið velsæld yfir 300 sinnum í stefnunni, en það var orð sem hafði varla sést í fjármálastefnu áður. Það er kannski dæmi um þetta breytta verklag. Hagstofan er núna farin að birta þessa velsældarvísa og ég held að við þingmenn, og ég mun leggja mig fram við það, virðulegur forseti, munum fylgja þeim markmiðum eftir. Við fylgjumst með þessum málum. Í þeim er m.a. komið inn á það sem hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson ræddi hér á undan mér, þ.e. fátækt. Við þurfum að hafa þessa mælikvarða og ég myndi helst vilja sjá þá eins mikið niðurbrjótanlega og hægt er svo hægt sé að bregðast við þar sem þörfin er mest, þar sem raunveruleg þörf er. Að í staðinn fyrir að fara í kerfisbreytingar á kerfinu öllu þá sjáum við hvar vandamálin liggja og við getum brugðist við vandamálum og hjálpað þeim sem á hjálpinni þurfa að halda. Ég held að þessi ágætu velsældarmarkmið séu tæki til þess.

Það er eitt sem mig langar að gagnrýna í þessari fjármálastefnu, það er markmið okkar eða mælikvarðinn sem settur er á eina okkar stærstu atvinnugrein, þ.e. ferðamenn. Hér er talað um fjölgun ferðamanna úr ríflega 700.000 árið 2021 í nær 2 milljónir 2024. Ég hygg að við þurfum að breyta orðræðunni hvað þetta varðar. Við erum núna með stefnumörkun ferðaþjónustunnar þar sem er í rauninni ekki minnst einu orði á fjölda ferðamanna, heldur gengur allt í stefnumörkun ferðaþjónustunnar út á það hvað við fáum út úr atvinnugreininni. Þar er t.d. markmið um 700 milljarða kr. útgjöld ferðamanna árið 2030, að heimamenn séu 90% eða meira jákvæðir fyrir ferðaþjónustunni og að meðmælastig sé hátt, sem og virk álagsstýring.

Ég vildi bara benda á þetta í þessu samhengi. Ég átta mig alveg á því að þetta eru tölur sem hafa verið settar inn í excel-skjöl til að bregðast við og með ákveðnum spám en ég held við þurfum að huga að því að breyta því í takt við þær breyttu áherslur sem eru orðnar hjá okkur í ferðaþjónustunni og munu verða enn fleiri, held ég, á komandi árum.

En annars þakka ég bara fyrir þessa góðu stefnu sem hér liggur fyrir og hlakka til að fá að fjalla frekar um hana í fjárlaganefnd, ég tala nú ekki um þegar við fáum mat fjármálaráðs sem mun fara yfir þetta og veita góða innsýn. Það er líka ein af þeim góðu breytingum sem orðið hafa með lögum um opinber fjármál, að við höfum þá óháða sérfræðinga utan þingsins sem skila okkur sínu mati á fjármálastefnunni. Allt er þetta gert til þess að auka fagmennskuna í kringum þetta og lýðræðislega umræðu um þennan risastóra málaflokk, sem eru efnahagsmál ríkisins, fjármálastefna okkar og áætlun til lengri tíma.