152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

fjármálastefna 2022 - 2026.

2. mál
[19:45]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu og langaði að taka undir nokkra hluti sem hv. þingmaður nefndi. Í fyrsta lagi tel ég mjög mikilvægt að við séum með sem bestan mælikvarða á hvað gangi vel, hvað gangi illa, hvar við eigum að bæta okkur o.s.frv. Ég ræddi hér fyrr í dag um mikilvægi þess að við þingmenn, og ríkisstjórnin reyndar líka, hefðum slík tól og slík módel til að vinna eftir þannig að við hefðum betri yfirsýn yfir það hvaða áhrif ákveðnar aðgerðir hafa á ákveðna hópa samfélagsins.

Svo langaði mig líka að nefna, og ég vona að þetta sé eitthvað sem fjárlaganefnd skoðar í meðförum sínum á málinu, fjölda ferðamanna sem hv. þingmaður talaði um. Það sló mig svolítið þegar ég hóf lesturinn á fjárlagafrumvarpinu að það virtist vera mikill niðurskurður á þeirri fjárhæð sem fer í að kynna Ísland á alþjóðavettvangi milli ára. Það voru nú ekki margir ferðamenn sem komu hingað á þessu ári þannig að ég veit ekki hvernig peningar þessa árs voru nýttir. En ég myndi alla vega vilja sjá meiru eytt í að halda áfram að kynna Ísland á erlendri grundu því að það er að koma nýr hópur af ferðamönnum sem vilja sjá þetta fallega land.