152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

störf þingsins.

[15:44]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Fyrst það er verið að ræða um raforkuöryggið þá datt ég hér inn sem varaþingmaður á kjörtímabilinu 2013–2016 og datt inn í nefnd þar sem Landsnet var bókstaflega að grátbiðja þingið um framkvæmdaáætlun til þess að það gæti byggt raflínur. Ég man eftir einum stjórnarþingmanni sem sat við hliðina á mér og var að skoða í símanum eitthvað allt annað en áætlun fyrir raforkulínur, sem mér fannst mjög áhugavert og hafði alveg ágætisáhrif á mig varðandi það hvernig ég umgengst eitthvað sem kallast virðing gagnvart Alþingi.

En að öðru: Skortur á gagnsæi í þessu plaggi, fjárlög 2022. Fyrir bæði þingmenn og þjóð og meira að segja þingmenn í fjárlaganefnd er þetta mjög óaðgengilegt plagg. Við þingmenn í fjárlaganefnd getum þó spurt sem aðrir geta illa. Umsagnaraðilar vita t.d. í rauninni ekki hvaða áhrif þær breytingar sem er verið að leggja til í frumvarpinu hafa á málefni sem þau hafa áhuga á. NPA-miðstöðin t.d. var að klóra sér í hausnum yfir því hvað væri að gerast varðandi þeirra málaflokk en þar er einmitt verið að fella niður 300 millj. kr. framlag til NPA-samninga, tímabundið framlag, og það þarf 321 milljón til að ná upp verðlagsuppfærslum og ýmislegu svoleiðis. Það er bara til að viðhalda núverandi fjölda, það er ekki til að uppfylla ákvæði þeirra laga og samninga sem hafa verið gerðir um þetta. Í þessu frumvarpi er rosalega mikið um það sem er „innan ramma“, að færa einhver verkefni eins og t.d. kvennaheilsugæslu innan ramma. Það hefur enginn hugmynd um hvað þetta kostar. Okkur er ekki sagt það. Ég er búinn að biðja um það núna að fjárlaganefnd kalli eftir því frá ráðuneytinu, þeim sem koma og þeim sem hafa þegar komið, að upplýsa okkur um það hvað þetta þýðir, „innan ramma“. Við erum að samþykkja hérna fjárheimildir. Það er takkinn sem við ýtum á í lok umræðu um fjárlög, já eða nei um fjárheimildir sem við verðum að vita hverjar eru.