152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

stjórn fiskveiða.

22. mál
[16:19]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Stundum virkar þessi krafa um endalausa sátt eins og tafaleikur, þegar fólk er kannski ekki í alvöru að leita að einhverri endanlegri niðurstöðu heldur að ýta vandanum á undan sér þannig að lausnin geti fundist einhvern tíma seinna eða kannski bara aldrei. Mér dettur þetta í hug vegna þess sem kom fram í frekar þunnri skýrslu sem þinginu barst, að beiðni Hönnu Katrínar Friðriksson, um eignarhald 20 stærstu útgerða í íslensku atvinnulífi. Þar kom ekki allt fram sem hefði átt að koma fram en umfangið varð ljóst. Að útgerðarauðvaldið sé á síðustu árum búið að fjárfesta botnlaust í ótengdum greinum atvinnulífsins fær mann til að velta því fyrir sér hvort langtímaplanið nýti þau auðæfi sem fólk nær þarna út úr sameiginlegri auðlind okkar, gegn því að borga of lítið afgjald til þjóðarinnar, til að gera útgerðarauðvaldið óháð útgerð innan nokkurra ára. Ef þær fjárfestingar sem fram komu í skýrslu fjármála- og efnahagsráðherra um eignarhald 20 stærstu útgerðarfyrirtækjanna — ef sú þróun heldur áfram er ekki langt að bíða þess að þeir aðilar þurfi ekki lengur útgerðina til að hafa botnlausar tekjur. Þá má kannski fara að breyta kerfinu af því að þá verða hagsmunirnir ekki þeir sömu. Ég velti því upp hvort það að setja enn eina nefnd í stjórnarsáttmála sé mögulega hluti af þeim tafaleikjum sem þarf til að koma þessum auðæfum fyrir vind.