152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

stjórn fiskveiða.

22. mál
[16:49]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kýs að svara þessu á þann hátt að segja að það er mjög mikilvægt þegar við erum að tala um atvinnulífið, hvort sem það er sjávarútvegur eða hvað annað, að við gerum það af mikilli virðingu. Sjávarútvegurinn er atvinnugrein sem er að skapa á fjórða hundrað milljarða í útflutningsverðmæti og í skjóli sjávarútvegsins hefur risið og skapast einhver mesta bylgja nýsköpunar á Íslandi bara frá því að land byggðist og hér eru glæsileg fyrirtæki sem framleiða fiskvinnsluvélar og -tæki og þau eru komin út um allan heim. Í Færeyjum og víða um heim eru fiskvinnsluhús og sláturhús búin íslenskum tækjum og hugviti. Þannig að við skulum tala um þetta af virðingu og ég held að við getum alveg náð áttum í þessu saman ef við gerum það. Ég veit ekki mikið um þetta Namibíu-mál annað en það sem hefur komið í blöðum en ég hef ekki séð neinn dæmdan. Og það er það sem skiptir okkur auðvitað máli, ef einhverjir Íslendingar hafa unnið óhæfuverk þarna þá þurfa dómstólar að taka á því og það er bara hin eðlilega leið. Ég styð það heils hugar að þau mál öll verði afgreidd þar í gegn. Ég veit um engan sem vill það ekki, engan. Bara að hið rétta komi í ljós. En ég fagna þessari umræðu um sjávarútvegsmál og er tilbúinn að taka þátt í henni áfram.