152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

velferð dýra.

15. mál
[19:44]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma með aðra spurningu til hv. þingmanns. Hann minntist á fjárhag sauðfjárbænda sem gjarnan mætti vera mun betri en raunin er og auðvitað mun bannið koma sér illa fyrir þá 119 bændur sem það mun snerta. En telur hv. þingmaður að hagsmunir þessara 119 bænda, sem sumir stunda jafnvel annan búskap, eins og sauðfjárbúskap, vegi þyngra en hagsmunir þeirra sem blóðtakan skaðar, þ.e. ímynd Íslands, ímynd íslenska hestsins, jafnvel ferðaþjónustunnar, Íslands sem matvælaframleiðslulands o.s.frv., fyrir utan það að vera dýraníð og ganga gegn velferð hryssunnar og hins ófædda folalds og vera ekki siðferðislega réttlætanlegt? Að sjálfsögðu er mikilvægt að bæta þeim skaðann, að ríkið komi til móts við þá, þessar 200–300 milljónir, 207 milljónir, en telur hann að þessir hagsmunir eigi að vega þyngra en þeir hagsmunir sem ég nefndi?