152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

skipan ráðherra.

[13:04]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Flokkarnir sem boðuðu stöðugleika í kosningabaráttunni létu það verða sitt fyrsta verk að setja af stað mestu ráðherrahringekju Íslandssögunnar, aðeins flokksformennirnir fengu að halda stöðum sínum en öðrum var ruslað til án nokkurra haldbærra útskýringa, hvorki gagnvart þjóðinni né ráðherrunum sjálfum, virðist vera. Þessar mannabreytingar lykta frekar af vantrausti í garð einstakra ráðherra en faglegu mati eða það er alla vega ljóst að áhugi eða reynsla ráðherra af verkefnum ráðuneytanna skiptir litlu máli. Þetta þykir því skiljanlega undarlegt, forseti. Og allra undarlegust þykir skipun Jóns Gunnarssonar í embætti dómsmálaráðherra sem hreinlega enginn botnar í. Hæstv. fjármálaráðherra var heldur ekki mjög skýr með svör fyrir Morgunblaðið þegar hann tilkynnti um skipun en þar sagði hann, með leyfi forseta:

„Jón kemur úr stærsta kjördæmi landsins þar sem fylgi Sjálfstæðisflokksins er mest. Hann hefur verið þingmaður frá árinu 2007 og gegndi ráðherraembætti um skamma hríð. Hann er ritari flokksins sömuleiðis og hefur sterkt umboð innan flokksins og er ágætlega að þessu kominn.“

Ekki eru það merkileg meðmæli, forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra virðist einfaldlega hafa fengið embætti sitt af því að hann er svo gegnheill Sjálfstæðismaður. En í þingflokki hæstv. fjármálaráðherra eru hins vegar 18 sjálfstæðismenn. Ráðherra fékk níu vikur til að íhuga val sitt og því má ætla að ákvörðun hæstv. fjármálaráðherra hafi verið úthugsuð. Mig langar því einfaldlega til að vita og spyr hæstv. fjármálaráðherra: Er Jón Gunnarsson besta dómsmálaráðherraefni Sjálfstæðisflokksins?