152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

kostnaður við breytingar á ráðuneytum.

[13:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Það getur verið að það sé misskilningur hjá mér að það skipti máli að hafa fylgi til að hrinda hugmyndum í framkvæmd. Ég skal þá bara hugsa það aftur. Það kann að vera að það sé ekkert samhengi þar á milli. En ég hélt ekki. Ég hélt að þetta héldist í hendur. (Gripið fram í.) Ég held að okkur hafi liðið vel með það að leggja okkar verk í dóm kjósenda undanfarinn áratug reyndar og okkar áherslur og höfum komist ágætlega frá því. Dæmin sýna, t.d. í síðasta uppgjöri, ef við köllum kosningarnar uppgjör við framkvæmd hugsjóna, að ríkisstjórnin hefur notið góðs stuðnings. Stjórnarflokkarnir eru þrír stærstu stjórnmálaflokkarnir á þingi þannig að ég vil endilega taka dýpri umræðu um þetta við tækifæri. En kostnaðurinn, nákvæmur kostnaður við það að koma á fót nýjum ráðuneytum, verður ræddur hér þegar þingsályktunartillagan kemur fram. (Forseti hringir.) En ég segi bara fyrir fram: Það er alveg hægt að gera ráð fyrir því að því fylgi kostnaður upp á hundruð milljóna.