152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

leiðrétting kjara lífeyrisþega.

[13:21]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og þau valda mér gífurlegum vonbrigðum. Hann bendir á eingreiðslu, jólauppbót hjá almannatryggingum. Hæsta jólauppbótin er um 47.000 kr., eftir skatt eru þetta 30.000 kr. en hann nefnir það ekki á nafn fyrst það skerðist. Flestir þeir sem fá smá úr lífeyrissjóði, konur aðallega, smápening úr lífeyrissjóði, fá ekkert af þessari jólauppbót, ekki krónu. Ég þekki það á eigin skinni vegna þess að ég var í þessum sporum að fá 1.500 kr. eða 1.000 kr. í jólabónus. Hvers lags ofbeldi er þetta? Hvers vegna hættum við þessu ekki í eitt skipti fyrir öll? Hann hlýtur að átta sig á því að það eina sem skilar sér til þessa hóps eru skatta- og skerðingarlausar tekjur. Það er hægt að fara í það. Ég spyr: Mun hann að berjast fyrir því að sjá til þess að þeir sem eru á lægstu bótunum, eru að fá 240.000 kr. útborgaðar og borga 35.000 kr. í skatt — væri ekki hægt að berjast fyrir því að hætta að skatta þessa einstaklinga og leyfa þeim að fá 275.000 kr. útborgaðar? Er það ofrausn?