152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

sjávarútvegsmál.

[13:31]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Við umræður um stefnuræðu forsætisráðherra rifjaði ég upp fantafína ræðu sem var haldin hér í þinginu fyrir rúmum fimm árum, afbragðsræða alveg hreint og ef ég vissi ekki betur mætti halda að hún hafi að hluta til verið samin og flutt á landsþingi Viðreisnar nú rétt fyrir kosningar. Ræðumaðurinn var hæstv. sjávarútvegsráðherra Svandís Svavarsdóttir, þá óbreyttur stjórnarandstöðuþingmaður. Þar sagði, með leyfi forseta:

„Í samfélaginu er viðvarandi og afar djúpstætt ósætti um núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Auðlindin sem sannarlega er þjóðarinnar, við skiljum það öll svo, skilar einfaldlega ekki nægum verðmætum í sameiginlega sjóði og örfáar fjölskyldur hafa efnast gríðarlega um mjög langt skeið. Í raun má segja að enginn sé sáttur við kerfið eins og það er nema þeir sem hagnast verulega á því og svo þeir stjórnmálaflokkar sem hafa gert sér far um að verja þau forréttindi, núverandi stjórnarflokkar.“

Að auki ræddi þingmaðurinn um að uppboð á aflaheimildum kæmi til greina sem hluti af blandaðri leið við úthlutun kvótans.

Yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar, þetta segja kannanir ítrekað, telur að ósanngjarnt gjald sé greitt fyrir aðgengi að auðlindinni. Í ljósi þeirra orða sem ég vitnaði til, má þá ekki slá því föstu að hæstv. sjávarútvegsráðherra muni standa við orð sín um forréttindakerfið, sem samstarfsflokkar hennar standa vörð um, og brjóta það upp og heimila aukna gjaldtöku þar sem uppboð kvótans yrði hluti af lausninni?

Ég er ekki að óska eftir langloku um sjálfbærar lausnir eða græn skref, með fullri virðingu fyrir því, heldur klárt og kvitt hvort hæstv. ráðherra ætli að standa við orð sín um að brjóta upp þetta forréttindakerfi samstarfsflokkanna.