152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

sóttvarnaaðgerðir og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:48]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir greinargóða skýrslu sem honum tókst nú reyndar ekki að klára þrátt fyrir mikinn og góðan vilja. Jafnframt óska ég honum velfarnaðar í krefjandi starfi. Ég treysti hæstv. ráðherra vel til þessara verkefna sem og annarra.

Það er rétt sem kom fram í skýrslu hæstv. ráðherra þegar hann segir að bólusetningar hér á landi hafi gengið vel. 90% þjóðarinnar eru fullbólusett og um 121.000 manns hafa fengið örvunarskammt sem samkvæmt upplýsingum vísindamanna gefur 90% meiri vörn gegn smiti. Þrátt fyrir þetta allt erum við með nokkrar samkomutakmarkanir hér á landi. Maður skynjar það einhvern veginn úti í samfélaginu að samstaðan sé að dvína og þolinmæði gagnvart viðvarandi sóttvarnatakmörkunum er að nálgast einhver þolmörk því eins og hæstv. ráðherra nefnir réttilega og kemur fram í skýrslu þá eru þessar takmarkanir vissulega íþyngjandi. Þær hafa áhrif á okkur, hvort sem það erum við sem einstaklingar eða fyrirtæki. Þrátt fyrir að líf okkar flestra gangi sinn vanagang þá er það hins vegar ekkert algilt úti í samfélaginu. En auðvitað er nauðsynlegt að verja líf og heilsu þjóðarinnar og það er eitthvað sem þarf auðvitað að vera númer eitt, tvö og þrjú. En samhliða þarf að verja efnahag heimila og fyrirtækja í þessu landi okkar.

Nú sjáum við það í vinnu nefnda hjá okkur að ýmsar efnahagslegar aðgerðir eru að renna sitt skeið en sóttvarnatakmarkanir virðast hins vegar ætla að fylgja okkur hressilega inn í nýtt ár. Hjá rekstraraðilum og fleirum sem verða fyrir beinum áhrifum af þessum takmörkunum og eru núna að sigla inn í vertíð jólanna er róðurinn víða orðinn ansi þungur. Ég get nefnt dæmi úr mínu heimahéraði, Hafnarfirði. Núverandi ástand og takmarkanir hafa þau áhrif á einn kráareiganda að það er búið að taka af honum 20 klukkustundir á viku, 80 klukkustundir í mánuði, og hver klukkustund kostar á bilinu 100.000–200.000 kr., þannig að við sjáum að á mánuði eru þetta um 12 millj. kr. Það er því áhugavert í þessu samhengi að velta því fyrir sér hvort það sé ekki rétt og sanngjarnt að nýta þær aðgerðir sem hafa sannað gildi sitt undanfarin tvö ár og halda þeim áfram til þess að draga úr högginu og jafnvel nýjar aðgerðir og aðlaga þær að þeim sem finna hvað mest fyrir þessu miklu höggi.

Auk þess tel ég rétt að velta því upp, og við erum auðvitað farin að þekkja dæmi af því víðs vegar úr heimi að þeir sem eru fullbólusettir eða eru nú komnir með örvunarskammt, séu undanþegnir ákveðnum takmörkunum og njóti frekari réttinda. Ég tel bara mikilvægt að þetta allt sé skoðað og tel, af því við erum með þessa góðu stöðu, þetta háa hlutfall bólusettra og þeirra sem hafa fengið örvunarskammt, að við séum komin á þann stað að við þurfum að fara að ræða þessi mál.

Að þessu sögðu þá bind ég miklar vonir við þær ætlanir hæstv. heilbrigðisráðherra að opna sex hágæslurými. Það mun draga verulega úr álagi á gjörgæsluna. Og að lokum væri áhugavert að vita um stöðuna á þessum sex rýmum og sérstakri farsóttardeild í Fossvogi og 30 endurhæfingarrýmum á Landakoti.