152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

sóttvarnaaðgerðir og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:58]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að gefa þinginu skýrslu og greina okkur aðeins frá stöðunni eins og hún blasir við frá hans bæjardyrum. Það var áhugavert að heyra og ég óska honum að sjálfsögðu velfarnaðar í störfum hans á kjörtímabilinu. Þetta er auðvitað mikilvægt ráðuneyti, stórt og mikið ráðuneyti sem mætt hefur mikið á í heimsfaraldrinum. Okkur Íslendingum hefur verið svolítið tíðrætt um það í þessum faraldri að það þurfi að vera samstaða meðal þjóðarinnar til þess að hlutirnir gangi almennilega upp þegar við erum að berjast gegn þeim vágesti sem veiran er. Ég tek undir að samstaðan skiptir gríðarlega miklu máli. Þetta er ekki eins og hvert annað pólitískt mál í sjálfu sér. Þetta er öðruvísi, þetta teygir sig inn á alls konar siðferðisanga sem við höfum ýtt á undan okkur, eins og fram hefur komið í umræðunni, og þar fram eftir götunum. Algjört frumskilyrði þess að það sé einhver samstaða meðal þjóðarinnar er auðvitað að stjórnvöld gangi í takt. Á síðustu mánuðum hefur mikið vantað upp á að stjórnvöld gangi í takt. Þetta hefur gengið þannig fyrir sig að komið hefur minnisblað frá sóttvarnalækni. Það hefur verið rætt í ríkisstjórn og við höfum séð uppákomur eftir ríkisstjórnarfundi þar sem hluti ríkisstjórnarinnar hleypur undan fréttamönnum, vísar á heilbrigðisráðherra sem talar síðan fyrir strangari sóttvarnaráðstöfunum og skerðingu á mannréttindum og aðrir ráðherrar eftir atvikum hendast inn á samfélagsmiðla til þess að gagnrýna þær ráðstafanir sem þó voru samþykktar á fundi þar sem hæstv. ráðherrarnir voru sjálfir viðstaddir.

Þetta eru ekki skilaboð um samstöðu til þjóðarinnar. Þetta eru ekki skilaboð um samstöðu. Þegar við í þessu landi erum að kvarta undan því að reglur séu stundum ruglingslegar, eins og auðvitað verður þegar verið er að skrifa handritið jafnóðum á meðan við erum að berjast við veiruna og höfum ekki miklar upplýsingar í höndunum, þá er algerlega óboðlegt að þessi staða sé uppi, að skilaboðin séu með þessum hætti frá hæstv. ríkisstjórn. Auðvitað eiga sér stað einhver skoðanaskipti við ríkisstjórnarborðið, þó það nú væri. Auðvitað greinir menn oft á. En eins og ég vísaði til þá er þetta mál ekki hefðbundið pólitískt mál sem lýtur einhverjum lögmálum þess dægurþrass sem við þekkjum úr pólitískri umræðu. Þetta kallar á samstöðu og þetta kallar á að stjórnvöld tali einum rómi ef á annað borð er ætlast til þess að almenningur hlýði og fari eftir þeim fyrirmælum og tilmælum sem gefin eru.

Þingmönnum varð tíðrætt um það hér í óundirbúnum fyrirspurnatíma hvað þingflokkur Sjálfstæðisflokksins væri stór. Það var áhugaverð umræða en ég vil gjarnan og hef áður á opinberum vettvangi sett þessa tölu í samhengi. Það eru 17 manns í þessum þingflokki. Það þarf ekki fleiri en 17 einstaklinga til þess að leggjast inn á spítala með Covid og viðbragðið er að skerða mannréttindi úti í samfélaginu. Þetta er ekki meiri fjöldi en það. Ef við förum í fótboltamálið er þetta byrjunarlið í fótbolta og varamannabekkurinn. Þessi fjöldi fer inn á spítala og við þurfum að bregðast við með því að skerða mannréttindi fólks. Við þurfum að taka af því atvinnufrelsið. Við þurfum að takmarka fundafrelsi, samkomufrelsi, einfaldlega vegna þess að ekki stærri hópur en þetta leggst inn á spítala. Þetta er stóri vandinn. Allar aðgerðir okkar í gegnum þennan faraldur miðast við þetta og það að ekki þurfi fleiri til segir okkur auðvitað að kerfið sem við erum að standa vörð um hefur verið vanrækt. Þessi vanræksla gerir það að verkum að ráðherrar í ríkisstjórn leyfa sér að hlaupa út af ríkisstjórnarfundi og gagnrýna þó þær ráðstafanir sem gerðar eru sem eru viðbragð við erfiðri stöðu á spítalanum. Þetta er auðvitað ólíðandi.

Þegar við erum farin að tala um í samhengi við bólusetningar að mannréttindi séu nánast orðin einhvers konar verðlaun úti í samfélaginu, að fá að ganga um frjáls og njóta þeirra mannréttinda sem við öll eigum að fá að njóta, þá er það auðvitað líka mjög varhugaverð staða.

Við eigum að vera á þeim stað núna, eins öflug í bólusetningunum og við erum, að þingið þurfi að móta langtímastefnu, langtímastefnu í sóttvarnamálum, langtímastefnu þegar kemur að bólusetningu. Það hvort við ætlum að vera með tvöfalt kerfi, bólusettra og óbólusettra, með hliðsjón af mannréttindum er ákvörðun sem þingið þarf að taka. Það á ekki að ákveða í minnisblöðum ráðherra sem fer síðan inn til ríkisstjórnar sem rífst síðan um það og hleypur út og suður, (Forseti hringir.) hvert með sín skilaboðin eftir því hvernig vindar blása hverju sinni. Þingið verður að koma meira að málum (Forseti hringir.) þegar við lítum til lengri tíma. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)