152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

stjórn fiskveiða.

86. mál
[16:28]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, í rauninni alls ekki. Ef við skoðum söguna í dag má leiða líkur að því að það séu a.m.k. þrjú fyrirtæki sem fara yfir 12% af aflahlutdeildinni. Þau verða þá einfaldlega að gera það á gegnsæjan hátt og fara eftir þeim reglum sem við höfum þegar sett þeim. En þau eru í rauninni að fara fjallabaksleið þegar kemur að hlutdeild í heildarafla hjá okkur Íslendingum. Þannig að ég held að það verði ekki til þess að fá þessa stóru og sterku til að fara út úr greininni, síður en svo, ég held að það sé einmitt fengur í því fyrir þessa stóru og sterku að sýna þjóðinni fram á að þeir geti farið eftir þeim reglum, eðlilegum leikreglum, sem þeim eru settar. Ég er handviss um það líka að þeir séu reiðubúnir til þess að gera eitthvað í þessum málum fyrir utan það að þeir geta líka borgað meira. Þeir geta borgað meira og við höfum séð gríðarlegan hagnað á síðustu tíu árum fyrst og fremst í gegnum uppsjávarfiskinn, í gegnum makrílinn og núna loðnuna. Það er bara kominn tími til að menn horfist í augu við (Forseti hringir.) að það er ekki greitt nægilega mikið fyrir aðganginn að auðlindinni. Réttlætiskennd fólks er misboðið.