152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

ráðstöfun útvarpsgjalds.

129. mál
[16:49]
Horfa

Flm. (Bergþór Ólason) (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég er ekki alveg viss um að ég sé sammála því að Ríkisútvarpið þurfi endilega veikjast þó að það minnki. Margur verður snarpari og skilvirkari eftir netta megrun. Mætti ég nú sjálfur fara í eina slíka.

Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að ríkið mætti ekki vera sem kæfandi hönd yfir markaðnum. Það er akkúrat lýsing þeirra einkaaðila, sem eru í hvað harðasta slagnum við Ríkisútvarpið, á samskiptunum þar á milli. Það held ég að enginn velkist í vafa um sem fylgst hefur með þeirri umræðu, að einkareknu fjölmiðlafyrirtækin telja sig í býsna snúinni stöðu hvað samskiptin við Ríkisútvarpið varðar. Ég fagna því og tek undir það sem hv. þingmaður kom inn á, að þessi umræða um þróun starfsemi Ríkisútvarpsins ætti að eiga sér stað innan Ríkisútvarpsins. Ég held að hún ætti að eiga sér stað hérna hjá okkur, því að Ríkisútvarpið var sett á laggirnar á grundvelli lagasetningar og það er Alþingi sem hefur fjárveitingavaldið og við ættum að vera óhrædd við að taka þessa umræðu hér innan húss. Ég fagna því sjónarmiði hv. þingmanns.

Hv. þingmaður kom inn á það að ekki mætti veikja RÚV heldur þyrfti að styrkja einkaaðila. Mig langar að spyrja hv. þingmann í seinna andsvari út í það með hvaða hætti hann sæi það best gerast núna. Þá er ég í rauninni að horfa til skamms tíma því að lýsingar einkaaðilanna eru með þeim hætti að þeir lýjast jafnt og þétt eftir því sem árin líða í þessu starfsumhverfi.